Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:08:20 (4891)

2004-03-04 11:08:20# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Á þessu 100 ára afmælisári heimastjórnar hefur verið óvenjumikil umræða um stjórnarskrána og stöðu hennar og ég tel að það sé af hinu góða.

Það frv. sem hér liggur fyrir þinginu má segja að sé innlegg í þá umræðu. Ég er ein þeirra sem tel að fyrir nokkuð löngu síðan sé komið tilefni til þess að gera heildarendurskoðun á stjórnarskránni og væri ekki úr vegi að hefja þá vinnu núna, á þessu 100 ára afmæli heimastjórnarinnar.

Þingflokkur Samf. lagði fram sem sitt fyrsta mál á haustþinginu tillögu um að gerð yrði slík endurskoðun á stjórnarskránni. Þar var hv. þm. Össur Skarphéðinsson 1. flm. Hæstv. forsrh. hefur nýlega lýst því yfir að hann telji ástæðu til að endurskoða stjórnarskrána. Reyndar hefur hann sérstaklega tiltekið tvo kafla hennar, I. og II. kafla, og þá kannski sérstaklega bent þar á ákvæðin um embætti forseta Íslands. Ég er ekki sammála hæstv. forsrh. í því að það séu þau verkefni sem er brýnast að skoða í íslenskri stjórnskipan. Ég held að það sem skipti mestu máli og sé mikilvægast að taka á sem allra fyrst sé staða Alþingis, staða þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Frumvarp hv. flm. Kristins H. Gunnarssonar er einmitt lagt fram, má segja, í því skyni að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Ég vil líka vekja athygli á því að þetta frv. snertir kannski að svolitlu leyti annað frv. sem liggur fyrir þinginu og varðar samkomutíma Alþingis. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ásamt mér er flm. að því. Það má segja að rökin fyrir því frv. séu þau sömu og fyrir þessu frv. og þá er ég einkum að vísa til ákvæðisins um bráðabirgðalögin. Það eru ekki rök fyrir því lengur að þingið starfi jafnstuttan tíma árs og áður var og þess vegna er hægt að gera breytingar á borð við þá sem hér er lagt til.

Ég vil sérstaklega einbeita mér að fyrri hluta frv. sem er um bráðabirgðalagaheimildina. Heimildin til bráðabirgðalaga er sett í því þjóðfélagi sem við Íslendingar bjuggum í á þarsíðustu öld og átti kannski við á fyrri hluta síðustu aldar þar sem voru miklir samgönguerfiðleikar, lítil fjarskipti og erfitt að fara á milli. Þingið kom saman mun sjaldnar en nú er. Í upphafi kom það saman annað hvert ár og fundirnir stóðu mjög skamman tíma í senn, átta vikur í upphafi, og þingið kom þá saman annað hvert ár. Það segir sig sjálft að ákvæðið átti heima í því þjóðfélagi sem við bjuggum í þá. Það hefur hins vegar jafnan verið umdeilt og komið oft til umræðu hvort það eigi rétt á sér og hvort þetta fyrirkomulag stangist ekki í raun á við það grundvallarskipulag sem við byggjum stjórnskipun okkar á, þrígreiningu ríkisvaldsins. Svo sannarlega gerir þetta ákvæði það. Þetta ákvæði gerir ráð fyrir því að frumkvæðið að löggjöfinni og löggjafarhlutverkið sé fært frá hinum eiginlega löggjafa sem er Alþingi og yfir til framkvæmdarvaldsins. Það segir sig sjálft að miðað við þetta dýrmæta skipulag sem stjórnskipunin byggir á um þrígreininguna --- við skulum ekki heldur gleyma því að þrígreiningin er einmitt sett til að vernda borgarana fyrir ofríki ríkisvaldsins. Þess vegna var þessu fyrirkomulagi komið á og við verðum alltaf að hafa það í huga þegar við ræðum þrígreininguna og stjórnskipunina. Það að taka í raun og veru þetta löggjafarhlutverk úr hendi Alþingis og setja það í hendur framkvæmdarvaldinu með eftirásamþykki Alþingis segir sig sjálft að er frávik frá þessari meginreglu.

Þetta var gert, hæstv. forseti, af ákveðinni neyð í upphafi og vegna þess að hér bjó enn fámennari þjóð en við höfum í dag í strjálbýlu og oft og tíðum mjög harðbýlu landi. Það var erfitt að taka upp í einni svipan þetta ítarlega fyrirkomulag sem þrískipting ríkisvaldsins gerði ráð fyrir. Þess vegna var eðlilegt á sínum tíma að gert væri ráð fyrir slíku ákvæði. Annars hefði verið mjög erfitt fyrir okkur að halda hér úti löggjafarsamkundu.

Síðan stjórnarskráin er sett í upphafi höfum við smám saman verið að vinda ofan af ýmsum vanköntum sem einkenndu hið upphaflega fyrirkomulag okkar og komu kannski bæði á stjórnskipan okkar og stjórnsýslukerfinu sem slíku og komu til vegna þessarar neyðar sem var strjálbýlið, samgönguerfiðleikar og fjarskiptaerfiðleikar. Það er ekki nema um það bil áratugur síðan við tókum upp fullan aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði. Fram að þeim tíma gátu sömu menn rannsakað og dæmt mál í héraði en það stenst ekki þær kröfur sem þrískiptingin kallar á. Við Íslendingar létum dragast óhóflega lengi að gera þessa grundvallarbreytingu í okkar kerfi og það þurfti til að einstaklingur, hjólreiðamaður á Akureyri, höfðaði mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem varð til þess að við drifum í að gera það sem við kannski fyrir löngu höfðum séð að við þyrftum að gera og var æskilegt að gera til að tryggja og styrkja lýðræðið.

[11:15]

Þó að það sé kannski að mörgu leyti ólíkt því sem við erum að ræða hér voru rökin fyrir þeirri breytingu gjarnan þau að erfitt væri að halda úti þessu fyrirkomulagi í dreifbýlinu þannig að við höfum oft skýlt okkur á bak við slík rök þó að ekki sé alltaf ástæða til þess. Og bráðabirgðalagaákvæðið er svo sannarlega arfur liðins tíma. Það eru engin rök fyrir því að halda því ákvæði úti lengur.

Það er í raun og veru ekkert sem kallar á þetta ákvæði í dag, og eins og kom í ljós þegar deildaskiptingin var afnumin fyrir 12, 13 árum var þetta mikið rætt og ákvæðið hefur eðlilega verið mjög umdeilt frá upphafi. Við deildaskiptinguna var hins vegar ákveðið að halda ákvæðinu áfram eða þrengja nokkuð heimildina vegna þess að menn voru kannski ekki tilbúnir til þess að taka skrefið til fulls þá.

Gjarnan hefur verið bent á að upp geti komið algjör neyðartilvik sem kalli á það að setja þurfi lög í einni svipan og jafnvel þrátt fyrir að við höfum betri fjarskipti og betri samgöngur en við höfðum áður geti þau atvik hugsanlega komið upp, einhver alvarleg hætta sem steðjar að landi og þjóð o.s.frv., og því er kannski skiljanlegt að það hafi verið hikað svolítið við að afnema ákvæðið algjörlega. En þegar maður skoðar umfjöllun um þetta ákvæði í stjórnskipunarréttinum er augljóst að það hefur ekki verið ætlunin, og allra síst eftir umræðuna 1991 var ekki ætlunin að það yrði notað nema í mjög afmörkuðum og takmörkuðum tilvikum.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, þar sem við höfum bara spánnýtt dæmi um það sem ég vil kalla beina misnotkun á þessu ákvæði sem eru hin umdeildu lög sem voru sett, bráðabirgðalögin um lax- og silungsveiði, á síðasta ári, ef ég man rétt, að það voru nákvæmlega engin rök fyrir því að setja bráðabirgðalög um það efni. Málið lá fyrir þegar þingið kom saman að vori og hægt hefði verið að framlengja þingið og láta það taka málið til umfjöllunar en það var ákveðið að gera það ekki. Í þeirri umræðu tókst hæstv. landbrh. ekki að sannfæra mig né marga aðra um að nauðsyn hafi verið á að fara þá leið að setja bráðabirgðalög.

Því segi ég, virðulegi forseti, að þó að ég geti skilið að það sé kannski svolítið viðurhlutamikið að fella ákvæðið algjörlega út --- að hugsanlega gætu verið einhver tilvik sem réttlæta það að halda því inni --- þá held ég að hægt sé að kalla Alþingi saman með það skömmum tíma í dag að ekki séu rök fyrir því að hafa ákvæðið lengur inni. Eftir að hafa farið í gegnum þá umræðu sem átti sér stað í fyrra um lax- og silungsveiðina þar sem var mjög hæpið að beita þessu ákvæði, held ég að þetta sé leið sem við eigum að skoða mjög alvarlega. Við eigum ekki að halda inni ákvæðum sem eru arfur liðinna tíma og engin rök eru fyrir að halda lengur inni og sérstaklega, virðulegi forseti, þegar komið hefur í ljós að þeim er beitt ótæpilega á Alþingi að grípa inn í og skoða hvort þurfi að breyta þessu.

Ég vil hins vegar segja, hæstv. forseti, að ég held að æskilegt væri varðandi stjórnarskrána að taka þessa heildarendurskoðun. Ég held að það sé orðið löngu tímabært og ég held að það sé betra að framkvæma breytingar á henni þannig. Það eru mörg önnur ákvæði sem ég teldi ástæðu til að skoða. Ég teldi t.d. ástæðu til að skoða frekar ákvæði 39. gr. sem er um rannsóknarnefndir þingsins sem hefur verið algjörlega óvirkt hér á landi og við höfum ekki náð að virkja en hefur verið mjög mikilvægur aðhaldsventill með framkvæmdarvaldinu í nágrannaríkjum okkar. Við þurfum kannski að velta því fyrir okkur af hverju það virkar ekki hér og skoða einhverjar breytingar á því. Fjölmörg fleiri ákvæði mætti nefna sem er fullkomlega kominn tími á að fara ofan í en að sjálfsögðu þyrfti að vanda þá vinnu mjög vel. Síðast þegar mannréttindakaflinn var endurskoðaður 1995 var það gert með fullmiklu hraði, þótti mörgum, það var gert af ákveðnu tilefni og var löngu tímabært. Ég held að sú breyting hafi verið til hins betra. Við ættum kannski að miða við það að hefja þessa vinnu núna á heimastjórnarafmælinu en gefa okkur svolítinn tíma í það og setja í það okkar besta fólk til þess að framkvæma þá heildarendurskoðun. Þetta er svo sannarlega eitt af því sem þyrfti að koma fyrir í slíkri endurskoðun.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill geta þess að mælt var fyrir frv. þessu þann 18. febrúar og þetta er framhaldsumræða.)