Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:53:00 (4896)

2004-03-04 11:53:00# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., Flm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:53]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst í hverju mismunandi mat liggur, þ.e. í því hvar eigi að draga mörkin. Hvar eiga takmörkin að liggja fyrir þann sem hefur heimild til að beita þessu ákvæði um að setja bráðabirgðalög? Með því að fara þá leið sem ég legg til eru mörkin alveg skýr. Það er ekki hægt að deila um það. Þá væri alveg ótvírætt að þetta mætti ekki þannig að það yrði ekki frekar um það deilt í framtíðinni. Menn hefðu enga heimild.

Vilji menn hafa ákvæðið inni tel ég að menn yrðu eftir sem áður að gera breytingu á þessu ákvæði eins og það er núna í stjórnarskránni vegna þess að það er of opið og matskennt. Menn yrðu þá að skýra frekar hvar þeir vilja draga mörkin. Menn geta t.d. ákveðið að takmarka lagasetningarheimildina við einhver þrengri afmörkuð tilvik sem eru tilgreind. Það mætti hugsa sér að lagasetningarheimildin væri takmörkuð að umfangi og hún gæti verið takmörkuð í tíma o.s.frv. Eftir þessar umsagnir þykir mér a.m.k. ljóst að jafnvel út frá sjónarhóli þeirra sem vilja hafa ákvæðið inni hljóti menn að telja að núgildandi heimild sé of opin því að hún býður upp á túlkun sem menn síðan útvíkka stig af stigi.