Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:23:21 (4902)

2004-03-04 12:23:21# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:23]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var komið að nokkrum ákvæðum II. kafla stjórnarskrárinnar sem réttilega þarfnast hugsanlega endurskoðunar. Ég get tekið undir það. Ég get líka tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er umræðunnar virði hvort við eigum að hafa hér forseta. Ég er ekkert viss um að hans sé þörf. Varðandi 3. gr. stjórnarskrárinnar má velta því fyrir sér hvað felist í því að forseti sé þjóðkjörinn. Hafa síðustu tveir forsetar lýðveldisins verið þjóðkjörnir? Þeir hafa verið kjörnir í embætti með 33% atkvæða annar og hinn 40% atkvæða. Telst slíkur aðili vera þjóðkjörinn?

Ég tek undir það sem hv. þm. sagði varðandi ákvæðið um að forsetaefni skuli hafa meðmæli minnst 1.500 kosningarbærra manna og mest 3.000. Þetta er atriði sem við ættum að skoða. Ákvæði 5. gr. hefur ekki breyst frá árinu 1944 þegar stjórnarskráin var sett. Þá voru Íslendingar 127 þús., rétt rúmlega, og samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni í lok ársins 2003 eru Íslendingar í dag rúmlega 290 þús. Íslendingum hefur fjölgað mjög verulega og þess vegna er eðlileg spurning hvort breyta eigi þeim fjölda meðmælenda sem fram kemur í 5. gr. með tilliti til þeirrar fólksfjölgunar sem orðið hefur á Íslandi, fjölga þeim upp í 4--6 þús. kannski. Það væri eðlilegt hlutfall miðað við þau hlutföll sem voru þegar stjórnarskráin var sett.