Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:26:16 (4904)

2004-03-04 12:26:16# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., Flm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:26]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Nú fer að líða að lokum þessarar umræðu og ég vil þakka hv. þm. sem tóku þátt í henni fyrir málefnalegar ræður og góðar undirtektir við það sjónarmið að hreyfa því að endurskoða ákvæði stjórnarskrárinnar þó að komið hafi fram skipt sjónarmið um þau tilteknu atriði sem lagt er til í frv. að verði breytt.

Ég vil í fyrsta lagi draga fram að það virðist vera nokkuð góður samhljómur meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunni um að rétt sé að huga að endurskoðun stjórnarskrárinnar, jafnvel heildarendurskoðun hennar. Menn hafa nefnt fáein önnur atriði sem vert væri að huga að við þá endurskoðun.

Ég hygg að góð niðurstaða geti orðið af þessu máli. Það fer að lokinni þessari umræðu til sérstakrar nefndar sem kjósa ber til að fjalla um frv. til breytingar á stjórnarskipunarlögum, að menn skoði í þeirri nefnd hvort ekki sé rétt að leggja slíkt til. Það væri hægt að afgreiða það með sérstakri þál. og kjósa sérstaka nefnd til þess, eins og hér var lagt til af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ég hygg að það gæti orðið farsæl niðurstaða á umræðunni að þessu sinni.

Ég vil víkja að nokkrum atriðum sem ég tel að menn ættu að skoða varðandi þá heildarendurskoðun. Í fyrsta lagi tek ég undir það sem hér hefur komið fram um að rétt sé að huga að því hvernig standa eigi að breytingum á stjórnarskránni. Við þekkjum hvernig það hefur verið til þessa. Alþingi samþykkir breytingar sem síðan eru lagðar fyrir Alþingi að nýju að undangengnum alþingiskosningum í millitíðinni. Þetta finnst mér mjög gallað fyrirkomulag vegna þess að í kosningunum sem fram fara á milli þessara tveggja þinga er kosið almennt um allt stjórnmálasviðið, og þær breytingar sem til stendur að gera á stjórnarskránni verða ekki sérstaklega umræðuefni kosninganna nema þá kannski ein og ein. Þær geta svo fallið í skuggann af öðrum pólitískum viðfangsefnum eða deiluefnum sem uppi eru á þeim tíma og lúta að allt öðru en stjórnarskránni.

Vegna þess að þingmenn sitja á Alþingi og ekki eru menn alltaf bestu dómarar í eigin sök hygg ég að skynsamlegt sé og jafnvel eðlilegast að breyta þessu fyrirkomulagi. Ég hygg að skilvirkasta fyrirkomulagið væri að breytingar á stjórnarskrá sem Alþingi hefur samþykkt yrðu lagðar fyrir þjóðina í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að um þær yrði kosið hverja og eina, þær fengju dóm kjósenda og tækju gildi ef þær yrðu samþykktar í þeirri atkvæðagreiðslu en annars ekki.

[12:30]

Í öðru lagi tel ég að skoða eigi ákvæði stjórnarskrárinnar um þingræðisregluna. Hún er ekki í stjórnarskrá. Það er hvergi kveðið á um það í íslenskri stjórnarskrá að hér gildi þingræði. Ég tel að við þurfum að skoða hvort ekki sé rétt að hafa það í stjórnarskrá og þá með hvaða hætti. Sums staðar erlendis tíðkast að löggjafarþingin samþykki sérstaklega hvern ráðherra eða veiti ríkisstjórninni í heild traustsyfirlýsingu í upphafi starfstíma hennar. Þing getur síðan leyst stjórn frá störfum með vantrauststillögu. Hér hefur þingræðið að vísu verið túlkað þannig, þó að það sé ekki stjórnarskrárbundið, að menn geti, með því að samþykkja á Alþingi vantrauststillögu á einstaka ráðherra eða þing, leyst ríkisstjórnina frá völdum. Það er einfaldlega vegna þess að menn hafa þann sameiginlega skilning en ekki vegna þess að það sé formákveðin regla.

Í þriðja lagi tel ég að við ættum að skoða hvort ekki sé rétt að setja í stjórnarskrána ákvæði um hvenær hægt er að skjóta málum til þjóðarinnar, ekki breytingum á stjórnarskrá heldur öðrum málum, eða hvenær einstakir hópar geta kallað til sín mál og látið fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um þau. Við hvaða skilyrði væri slíkt mögulegt, hvaða mál yrði þar um að ræða? Hvaða mál væri hægt að leggja fyrir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðslu o.s.frv.? Ég held að það væri ávinningur að því að setja slík ákvæði í stjórnarskrá. Menn gætu í sérstaklega umdeildum málum, þar sem umtalsverður stuðningur er við tiltekið sjónarmið, knúið fram atkvæðagreiðslu um þau. Það þýddi auðvitað að menn færðu dálítið valdið frá þjóðkjörnum fulltrúum á Alþingi til þjóðarinnar sjálfrar. Ég tel vel koma til greina að gera slíkt. Ég held að við ættum að huga að því í þeirri heildarendurskoðun á stjórnarskrá sem menn hafa rætt um að kannski væri tímabær.

Það hvernig lýðveldisstofnunina bar að eru sérstök rök fyrir því að láta fara fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni. Við vorum ekki tilbúin með eigin stjórnarskrá og urðum að bregðast við með því að taka erlenda, danska stjórnskrá og staðfæra hana að okkar aðstæðum. Í sjálfu sér var aldrei unnin sérstök tillaga af okkar hálfu um hvernig við vildum hafa stjórnarskrána. Hún er orðin forn að stofni og bætt að nokkru leyti, út af fyrir sig með ágætum viðbótum eins og árið 1995 með mannréttindakafla sem var mjög þarfur og góður og er okkur til sóma í stjórnarskránni.

Þessi atriði vildi ég nefna sem dæmi um atriði sem til greina kæmu að menn tækju fyrir í heildarendurskoðun. Svo vil ég nefna eitt atriði enn sem nefnt var í þingsölum fyrir rúmum 20 árum og mikil þjóðfélagsleg umræða er um, þ.e. um það sem lýtur að stöðu framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu. Ríkisstjórnin er ekki kosin af þjóðinni. Hún er kosin af þingflokkum. Sums staðar er það fyrirkomulag haft að oddviti framkvæmdarvaldsins er kosinn beinni kosningu. Forseti Bandaríkjanna er oddviti framkvæmdarvaldsins í Bandaríkjunum. Svipað er í Frakklandi. Þeir eru kosnir í beinum kosningum og skipa síðan ríkisstjórn að eigin vali sem starfar í umboði forseta.

Menn hafa rætt um að það þyrfti að skoða ákvæði um forsetaembættið, sem ég hygg að ég geti tekið undir því að þar er margt orðið gamalt eins og gefur að skilja í löggjöf sem að stofni til er mjög gömul. Í því sambandi mætti alveg velta fyrir sér: Er kannski ekki rétt, úr því að forsetinn er þjóðkjörinn eins og Alþingi, að gera forsetann að oddvita framkvæmdarvaldsins? Þá væri t.d. hægt að leggja niður embætti forsrh., forseti getur bara verið forsrh. og skipað ríkisstjórn. Þá fylgir því auðvitað að ríkisstjórnin situr ekki á Alþingi, þá skilja menn í sundur. En ef menn gerðu það þá gerðu menn forsetann að pólitísku embætti, sem út af fyrir sig er ekki víst að um sé algjör samstaða. Þetta er a.m.k. hugmynd sem ég held að vert sé að skoða.

Það eru mörg sjónarmið uppi sem við höfum aldrei tekið alvarlega pólitíska umræðu um, a.m.k. ekki í mjög langan tíma. Varðandi þessar hugmyndir um beina kosningu oddvita framkvæmdarvalds vísa ég til hugmynda sem Vilmundur Gylfason heitinn setti fram fyrir rúmum 20 árum. Þær fengu töluverða umræðu á þeim tíma og nokkurn hljómgrunn þótt kannski væri erfitt að mæla það. En þá var ekki um neinar sérstakar skoðanakannanir að ræða til að kanna afstöðu manna til þeirrar tillögu. En ég man að á þeim tíma var þetta nokkuð rætt og margir sem studdu slíkar tillögur.

Ég vil víkja að sjónarmiðum sem fram hafa komið, eins og þeim hvort með því að meina ráðherrum setu á þingi sé ekki verið að styrkja stjórnarflokka hverju sinni með því að fjölga á Alþingi um þann fjölda sem ráðherrarnir eru. Svo er ekki, að mínu mati. Ég legg til að menn verði að velja milli tveggja kosta. Sá sem býður sig fram til Alþingis getur ekki setið á Alþingi og sóst eftir ráðherradómi. Hann verður þá að afsala sér þingmennskunni og taka áhættuna á því að setjast í ráðherrastól. Ef hann missir það embætti þá á hann ekki afturkvæmt á þing nema í gegnum næstu alþingiskosningar. Ég tel nauðsynlegt að skera að fullu á tengslin þarna á milli þannig að menn geti ekki valið með því að taka sér leyfi frá þingstörfum og kalla inn varamann. Við þær aðstæður væri verið að styrkja stjórnarflokkana. Þá fengju þeir í raun tvo pólitíska menn inn fyrir hvert sæti sem ráðherra skipar. En með því að aðskilja þetta algjörlega hafa ráðherrarnir engu hlutverki að gegna í þingsölum umfram það að leggja fram frumvörp og svara fyrirspurnum, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á.

Í sjálfu sér er óeðlilegt, þar sem við búum við stjórnarskipulag sem byggt er á þrígreiningu valdsins, hvernig við stillum upp þingsalnum. Við höfum ráðherranna á hábekk og við ávörpum þá ekki háttvirta eins og þingmenn heldur hæstvirta. Við setjum þá ofar þinginu og drögum þá úr þingsalnum á sérbekk, á ráðherrabekk. Það er auðvitað óeðlilegt. Hér í þingsölum eru allir jafnir nema þeir sem Alþingi kýs til að stjórna sínum fundum, þ.e. forsetar Alþingis. Ráðherrar hafa í sjálfu sér ekki sérstöku hlutverki að gegna í þingsölum umfram aðra þingmenn. Í sjálfu sér ættu þeir sem eru ráðherrar og jafnframt þingmenn að sitja innan um aðra þingmenn. Það finnst mér.

Ef við værum hins vegar búin að aðskilja þetta þá þyrftum við að hafa sérsæti fyrir ráðherra til þess að þeir gætu einhvers staðar setið þegar þeir koma til að mæla fyrir málum sínum eða svara fyrirspurnum. Það mætti spyrja: Bíddu við, ef við erum með bæði Alþingi og framkvæmdarvaldið hér inni í þingsalnum af hverju erum við þá ekki með dómsvaldið? Hvernig væri að hafa Hæstarétt hérna? Auðvitað finnst mönnum það fáránlegt. Menn eru löngu búnir að taka stjórnmálamennina út úr dómsvaldinu nema að því leyti að menn fela dómsmrh. að skipa hæstaréttardómara, sem ég tel að geti verið ágætt fyrirkomulag til frambúðar ef dómsmrh. eða forustumenn stjórnmálanna hafa ekki of mikil tök á Alþingi. Þá eru menn farnir að nálgast þá stöðu sem einn þingmaður nefndi að væri í raun hugmyndin með þrígreiningu valdsins í upphafi. Menn brugðust með því við aðstæðum sem voru uppi fyrir löngum tíma, að einn maður var alvaldur og menn vildu takmarka vald eins manns.

Hugmyndir okkar um aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds eru byggðar á því sama. Þeir sem eru forustumenn í stjórnmálunum í dag og sitja í ríkisstjórn hafa líka langmest áhrif á framvindu mála á Alþingi, ekki að formi heldur að efni. Við því er ég að bregðast með þessum tillöguflutningi, til að tryggja að þingmenn starfi á þinginu og láti ekki ráðherra stjórna gerðum þingsins um of. Það vitum við öll sem höfum starfað á þingi, að ráðherrar geta verið býsna fyrirferðarfrekir í afskiptum sínum af afgreiðslu einstakra mála sem þingnefndir eiga að leiða til lykta og skila af sér til þingsins. Þannig er nokkuð skýrt hvað fyrir mér vakir.

Það verður ekki kostnaðarauki fyrir Alþingi við að ráðherrar víki úr þinginu. Kostnaður Alþingis mundi lækka sem nemur þingfararkaupi sem ráðherrar fá í dag. Kostnaðurinn mundi lækka um 60 millj. kr. á ári. Hugsanlega mun afl þingsins vaxa á móti, það mun ráða sér fleiri starfsmenn til að þingið sjálft búi yfir betri sérfræðiþekkingu sem þingmenn gætu leitað til. Á móti getur vaxið kostnaður við einstök ráðuneyti en við vitum ekki hvernig við mundum skipa ráðuneytunum við þessar aðstæður. Ég spái því að við mundum fækka ráðherrum. Við gætum þá sett á ráðuneytin þá kröfu að hagræða á móti vaxandi kostnaði.

Herra forseti. Ég vil síðan ítreka þakkir mínar fyrir góðar umræður í þessu máli.