Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:57:12 (4906)

2004-03-04 12:57:12# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:57]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Hér er um mikið réttlætismál að ræða rétt eins og frv. sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti í haust á Alþingi um að táknmál yrði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra og fór þá fram gagnmerk og tímabær umræða um mannréttindi heyrnarlausra og heyrnarskertra og aðgengi þeirra að samfélaginu. Það sem einu sinni var fjarstæðukennt og mönnum ekki hugstætt, eins og slík atriði, þykja í öllum nágrannalöndum okkar sjálfsögð mál í dag og flokkast þar undir mannréttindi. Við nokkrir þingmenn erum meðflutningsmenn að þessu frv. til laga um textun þar sem markmiðið er að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn. Þetta er mál sem mörgum þætti sjálfsagt að væri langtum framar á veg komið en raunin er og þegar maður kynnir sér málið með því t.d. að lesa frv. og þá vönduðu og ítarlegu greinargerð sem því fylgir þá er eiginlega óhætt að fullyrða að marga réttsýna menn mundi setja hljóða.

[13:00]

Þegar við skoðum ástandið hérna samanborið við veruleikann og þróunina, ekki bara í nágrannalöndunum heldur flestum löndum Evrópu, kemur fram að Ísland er á slóðum Albaníu, eins frumstæðasta ríkis í Evrópu og þess ríkis sem kannski fór hvað verst út úr óöld og skelfingum austantjaldslandanna og einræðisstjórnanna þar. Þar er textun sem sagt engin en á Íslandi er hún ein klukkustund á viku á meðan t.d. er um að ræða textun upp á 170 klukkustundir í Austurríki og 189 í Danmörku. Í Bretlandi er þróunin svo langt á veg komin að 80% af öllu efni frá BBC, ITV og C4 eru textuð. Eins og fram kemur í frv. er einnig um að ræða textun á til að mynda útsendingum frá Alþingi.

Þar komum við kannski að kjarna málsins, þ.e. aðgengi að samfélaginu. Þeim fjölgar að sjálfsögðu sem búa við skerta heyrn eftir því sem öldruðum fjölgar í samfélaginu og hinar stóru kynslóðir og fjölmennu komast á efri ár, og sem betur fer lifir fólk lengur og betra lífi langt fram eftir aldri. Það sem einu sinni þótti gamalt fólk þykir í dag fólk á besta aldri, fólk heldur fullri heilsu og lítt skertri atorku langt fram eftir aldri. Hins vegar verða margir fyrir því að heyrnin skerðist. Eins og fram kemur í greinargerð var almennt talið algengt að heyrn skertist um fimmtugt en nú hefur það því miður færst langtum neðar í aldri. Heyrn fólks skerðist oft um þrítugt og er það almennt talið vera, eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Rétt er að geta þess að á Norðurlöndum hefur komið fram að fólk missir eitthvað af heyrninni um þrítugt en aldursviðmiðið var áður um fimmtugt. Ástæðan fyrir því er sú að nú verða unglingar fyrir stöðugt meira hávaðaáreiti sem gerir það að verkum að heyrnin skerðist fyrr á ævinni en áður.``

Það sem málið snýst einnig um að hluta er að þeir sem búa við skerta heyrn eru margir, og þó að þeir væru ekki margir ætti að vera sjálfsagt mál, herra forseti, að við textum allt það efni sem nokkur kostur er. Eins og hér er lagt til er að sjálfsögðu ástæða til að skora á hv. Alþingi að veita málinu brautargengi. Það væri undarlegt ef stjórnarflokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., ætluðu að fara að setja fótinn fyrir þetta mikla réttlætismál á sama tíma og menn eru að pilla peninga í aukinn vígbúnað íslensku sérdeildanna. Það væri bókstaflega fáránlegt, herra forseti, ef menn ætluðu að koma í veg fyrir að einu af stærri réttlætismálum seinni ára og einu af þeim brýnni réttlætismálum sem liggja fyrir þessu löggjafarþingi í vetur, fyrsta þingi eftir kosningar á síðasta ári, yrði veitt framganga. Það er ömurlegt ef stjórnarflokkarnir gera við þetta mál það sem gert er við stjórnarandstöðuþingmál almennt og yfirleitt, að svæfa þau í nefnd. Skammarlegt háttalag hér á Alþingi, það er sama hversu brýnt og gott málið er, allt er svæft í nefnd. Ég skora á stjórnarflokkana að rifja nú upp manndóminn og stóru orðin frá kosningunum um fólk í fyrirrúmi og veita þessu máli brautargengi. Þetta er brýnt mál, það þolir ekki neina bið eða þyrnirósarsvefn í nefndum fram eftir öllu þessu kjörtímabili og þangað til stjórnarandstöðuflokkunum tekst, vonandi í næstu kosningum, að koma núv. ríkisstjórn rækilega frá og þeim flokkum sem hana mynda hér út úr öllum stjórnum, ráðum og út í kuldann. Það væri nú mikil drottins blessun fyrir landið ef svo yrði og þá fengjum við að sjá slík umbótamál sem þetta hér fram ganga.

En málið þolir ekki þá bið. Hér er verið að tala um aðlögunartíma upp á fimm ár þar sem lögð er til mjög sanngjörn aðlögun að málinu, sérstaklega samanborið við hve hratt þessari þróun hefur fleygt fram í löndum Evrópu og annars staðar á Norðurlöndunum. Við getum tekið land sem maður gæti kannski ekkert gefið sér fyrir fram að væri framarlega í þessum málum, Spán, en þar eru 446 tímar textaðir á mánuði. Sviss 240, Þýskaland 387. Ísland og Albanía, 1 og 0. Glæsileg frammistaða hjá íslenskum stjórnvöldum, og sérstaklega í því ljósi að á 126. löggjafarþingi var samþykkt þál. um textun íslensks sjónvarpsefnis. Eins og hér segir, með leyfi forseta, ,,virðist samþykkt Alþingis litlu hafa skilað í reynd``.

Svo eru taldir upp lítils háttar tímabundnir styrkir til textunar á innlendu sjónvarpsefni í ríkissjónvarpinu sem ráðuneytin eru að skammta eins og skít úr hnefa til eins árs í senn í staðinn fyrir að skjóta varanlegum stoðum undir textun á íslensku sjónvarpsefni með því að binda það í lög. Það er eina leiðin sem er fær og eina leiðin sem er vitræn.

Hér er lagt til, eins og áður sagði, að tveimur árum eftir gildistöku laganna skuli 60% af öllu innlendu efni vera textuð, þremur árum frá gildistökunni 80%, fjórum árum 90% og eftir fimm ár frá gildistöku laganna skal allt innlent efni textað í samræmi við ákvæði frv.

Eins og hér stendur, með leyfi forseta:

,,Á meðan á aðlögunartíma stendur er aðilum skv. 2. gr. heimilt að sækja um styrk til uppbyggingar á nauðsynlegum tækjabúnaði og innleiðingar nýrrar tækni til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt lögum þessum. Textunarsjóður annast styrkveitingar samkvæmt þessari grein.``

Þetta er ákaflega skýrt mál og í rauninni alveg með ólíkindum að það skuli þurfa að færa fyrir því rök að textun fari fram á innlendu sjónvarpsefni þar sem sanngirnisrökin og hve augljóst það er hlýtur að blasa við öllum mönnum. Það er bókstaflega verið að halda stórum hópum Íslendinga utan samfélagsins.

Við tölum um það oft og tíðum, síðast á hinu háa Alþingi í gær, hve mikilvægu hlutverki Ríkisútvarpið hafi að gegna. Öryggishlutverki, sagði hv. þm. Jón Kr. Óskarsson, og minnti okkur á það, menningarlegu hlutverki, fræðsluhlutverkinu, afþreyingarhlutverkinu fyrir þá sem eru mikið heima og þurfa þess ýmissa hluta vegna, t.d. eldra fólk og margir aðrir. Þetta fólk fær nánast ekkert út úr íslensku sjónvarpsefni, sem hlýtur að eiga einhvern tíma í framtíðinni að verða, og ætti að vera, flaggskip ríkissjónvarpsins, nema efnið sé textað. Sú er hins vegar ekki raunin og ég veit ekki hvort þessi eini klukkutími á viku --- hálftími af því er Spaugstofan og það er í sjálfu sér góðra gjalda vert að texta Spaugstofuna enda tekst þeim oft mjög vel upp og kannski oft betur en okkur í stjórnarandstöðunni að draga fram þá dæmalausu ráðstjórn sem hér fer með völdin. Allt um það og það er góðra gjalda vert, það litla sem er.

Vilji menn samt taka sig alvarlega sem réttarríki og velferðarríki í fremstu röð skipa þeir sér ekki á bás með Albaníu. Með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem þar býr og þeirri neyð sem þar ríkir hljótum við að keppa að því að standa í allra fremstu röð, í röð með Bretum, Dönum, Spánverjum, Svisslendingum og Þjóðverjum þar sem segja má að megnið af innlendu sjónvarpsefni þessara landa sé textað og þar með gert aðgengilegt því fólki sem heyrir illa eða heyrir ekki neitt og getur þar af leiðandi ekki notið þess efnis sem þar fer fram. Vilji menn standa á því að Ríkisútvarpið gegni hérna mikilvægu öryggishlutverki hlýtur það að blasa við að þetta efni verði textað, hvort sem er umræða frá Alþingi þar sem verið er að ræða um skipan samfélagsmála eða fréttaefni hvers konar og svo mætti lengi telja. Við fáum öll meginupplýsingar okkar í þessu flókna samfélagi sem við lifum í í dag með því að horfa og hlusta á fréttir og sérstaklega kannski fréttirnar úr sjónvarpinu sem er áhrifamikill og dómínerandi miðill í umræðu um samfélagsmálin. Eigi menn ekki kost á því að hlýða á þær upplýsingar sem þar koma fram getur ekki verið hægt að halda því fram með neinu viti að Ríkisútvarpið gegni hérna mikilvægu öryggishlutverki fyrir alla landsmenn. Það er algjörlega útilokað að halda því fram.

Vilji menn standa á því að svo sé og það sé ein af meginstoðum þess að við höldum Ríkisútvarpinu úti þarf að tryggja aðgengi allra. Margir vilja reyndar meina að Ríkisútvarpið gegni oft og tíðum ekki öðru hlutverki en því sem ráðamenn vilja hverju sinni. Ég held að það sé ekki rétt. Þó að þeir reyni að troða það niður með járnhæl sínum eins oft og þeir geta tekst þeim það ekki út af því að þar vinnur mikið af góðu fólki sem lætur ekki bjóða sér slíka hluti eða skipa sér fyrir eins og hundum í bandi.

Virðulegi forseti. Til að Ríkisútvarpið standi undir nafni verður að búa um hnútana með þeim hætti að innan fimm ára, einhvern tíma í kringum 2010 eins og lagt er til í frv., verði allt innlent sjónvarpsefni textað, og ekki bara hjá Ríkisútvarpinu heldur hjá þeim ljósvakamiðlum, sjónvarpsstöðvum, sem senda út og framleiða íslenskt efni. Böggull fylgir skammrifi og þetta er eitt af því sem því fylgir að reka fjölmiðil og á að fylgja því að reka ljósvakamiðil, sjónvarpsstöð, að innlent efni skuli vera textað, eins og við leggjum til, flm., í þessu frv. Fyrsti flm., hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, gerði grein fyrir því áðan að í því sem sjálfsagt þykir og eðlilegt á Norðurlöndunum og í þeim löndum sem við höfum verið að nefna sem mjög óhrekjanleg dæmi um hve vel menn standa sig í þessum málum erum við langt að baki.

Svo er annað sem er dregið hérna fram, það er ekki bara um kostnað að ræða. Um er að ræða mikinn virðisauka fyrir fólkið og mikinn virðisauka fyrir samfélagið, að opna fólki greiðari götur og greiða leið að samfélaginu. Eins og nefnt er í frv. má taka sem dæmi að lestrarhæfni og lesskilningur heyrnarskertra barna og heyrnarlausra eykst verulega. Það hlýtur að vera mikill ávinningur í því að auka aðgengi, skilning og upplýsingu alls þess fólks á íslensku samfélagi. Það er engin leið að reikna þetta út sem kostnað og útgjöld fyrir samfélagið og reikna það einungis í þeim milljónum sem lagðar eru til til að hægt sé að texta. Ávinningurinn er svo margvíslegur. Hvernig sem við lítum á málið og hvernig sem við komum að því er augljós ávinningur að því og skilar sér margfalt til baka út í samfélagið þegar við greiðum þeim leið inn í samfélagið sem hafa ekki að því greiða leið. Það má færa svo margvísleg rök fyrir því rétt eins og þegar menn eru að reikna út öll ,,útgjöld til velferðarmála sem kostnað fyrir samfélagið``. Svo er náttúrlega alls ekki. Þetta eru fyrst og fremst félagslegar fjárfestingar.

Textun á innlendu sjónvarpsefni á fyrst og fremst að líta á sem réttlætismál, mannréttindamál og félagslega fjárfestingu, rétt eins og svo margt annað gott í samfélagi okkar sem við félagshyggjumenn og jafnaðarmenn greiðum glöð okkar skatta til að geta haldið úti og þar með lifað í samfélagi sem við erum stolt af en ekki samfélagi sem er einungis byggt upp og gert fyrir þá sem fæðast með silfurskeið í munni eða búa svo vel að vera við góða heilsu, fá góða menntun og vera í góðum störfum. Við þau forréttindi búa því miður ekki næstum því allir. Því fer víðs fjarri. Það er okkar hlutverk sem höfum góð laun, erum við góða heilsu og lifum góðu og farsælu lífi að tryggja að þetta fólk geti tekið þátt í samfélaginu með sama hætti og við. Eitt af þeim sjálfsögðu atriðum er að greiða heyrnarskertum og heyrnarlausum leið að samfélaginu, annars vegar með því, eins og ég gat örlítið um áðan, að gera táknmál að móðurmáli heyrnarlausra. Það ætti nú að vera sjálfsagt mál en það hefur lítið bólað á því þingmáli úr nefnd síðan hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir flutti það hér í haust. Það er orðið brýnt að kalla eftir því máli eða ætla stjórnarflokkarnir að reyna að svæfa það til dauða? Eins er með þetta, að festa í lög að texta eigi innlent sjónvarpsefni.

Þetta er mjög gott mál og ég vil nota tækifærið aftur --- þarna er kominn stjórnarliði í salinn sem almennt er talinn til róttækra félagshyggjumanna og réttlætissinna hvers konar, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, og skora ég á þann áhrifamikla mann og áræðna, eins og oft hefur sýnt sig þegar brýn mál eru uppi, að fylgja okkur í þessa för og tryggja að þetta mál um textun á sjónvarpsefni verði að lögum fyrir vorið.