Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 13:18:15 (4908)

2004-03-04 13:18:15# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[13:18]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Frv. sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir mælir hér fyrir snýst um réttlæti. Ég tel málið sanngjarnt og að það verði að binda í lög eigi það yfirleitt að fá framgang í þjóðfélagi okkar.

Það er ljóst, virðulegi forseti, að hér er líka um mannréttindamál að ræða, mál sem snýr að jafnræði og jöfnuði meðal fólks. Í ágætri framsöguræðu 1. flm., hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur, var vikið að því að heyrnarskertum væri að fjölga og að heyrnarskerðing færðist niður eftir aldurshópunum. Einnig var bent á að ný tækni væri að koma til sem gera mundi unnt að breyta tali í texta. Það er auðvitað mikið ánægjuefni að með auðveldari hætti verði hægt að texta íslenskt efni og annað efni sem borið er á borð í ljósvakamiðlum, kvikmyndahúsum og efni sem sett er fram á myndrænan hátt.

Frumvarpið er aðeins sex greinar fyrir utan gildistöku\-ákvæðið. Það kveður á um réttindi heyrnarskertra til að öðlast sömu réttindi og við sem heyrum höfum. Því miður hefur þessu máli miðað hægt hér á landi eins og komið hefur verið inn á í máli hv. þm. sem hér hafa talað í ágætum ræðum. Ég ætla ekki að endurtaka það.

Ég tel hins vegar að með þessu frv. til laga megi ná fram því markmiði að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingu og fræðsluefni til jafns við þá sem fulla heyrn hafa. Því verður ekki náð fram nema það verði gert að lögum eins og ég sagði í upphafi máls míns.

Frumvarpið byggir á ákveðinni aðlögun, eins og fram kemur í 5. gr. þess. Boðið er upp á aðlögunartíma til fimm ára. Ef frv. yrði að lögum á þessu þingi, sem ég vonast sannarlega eftir og ég vil leyfa mér að trúa að háttvirtir stjórnarliðar á Alþingi muni taka undir þetta mál og veita því brautargengi, yrðu öll ákvæði frv. að fullu komin til framkvæmda árið 2009, miðað við frestunarákvæði í gildistökuákvæðunum um efni og textun sem hér er sett upp í ákveðnum prósentuhlutföllum.

Ég tel þetta mjög sanngjarna og eðlilega leið og eðlilega framsetningu. Ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að málinu verði að þoka fram. Ég tel að uppbygging frv. bjóði upp á sanngjarna leið til að lögfesta það að við tryggjum heyrnarlausum og heyrnarskertum jafnræði á við okkur sem höfum fulla heyrn. Þetta er brýnt og gott mál.

Ég vil að endingu skora á stjórnarliða á Alþingi að leggja okkur í stjórnarandstöðunni, sem höfum flutt málið inn á þing, lið við að bæta þessum hópi íslenskra þegna upp það misrétti sem þeir búa við og þeim verði tryggð full mannréttindi til jafns við aðra.