Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:07:52 (4915)

2004-03-04 14:07:52# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Lengi hefur verið rætt í íslensku þjóðfélagi, a.m.k. meðal sjómannasamtaka og annarra sem tengst hafa íslenskri útgerð, um stöðu íslenskra farmanna í siglingum og störf þeirra, hvernig bæri að reyna að tryggja það að á íslenskum skipum störfuðu íslenskir farmenn og einnig á skipum sem íslensku skipafélögin leigja og sigla undir erlendum fána. En nú er svo komið í dag að öll skip sem stunda flutninga eru komin undir erlenda fána, því miður.

Þegar við meðtókum EES-samninginn á sínum tíma var það aðalröksemd okkar fyrir því, sem ég taldi þá eðlilega og studdi og styð enn, að Ísland þyrfti að vera í svipuðu viðskipta- og samkeppnisumhverfi og löndin í kringum okkur. Það væri nauðsynlegt að atvinnustarfsemi á Íslandi starfaði á svipuðum grundvelli og við svipuð skilyrði og annars staðar í nágrannalöndunum, m.a. á Norðurlöndunum. Rök stjórnvalda á hverjum tíma fyrir því að breyta hinum ýmsu reglum sem snúa að samkeppnishæfni atvinnulífs þegna landsins, viðskiptalegum hagsmunum, sköttum --- ég minni á alþjóðleg viðskiptafélög o.s.frv. --- hafa öll verið í þá veru að Ísland gæti ekki skorið sig úr miðað við önnur lönd í kringum okkur ef við ætluðum að standa jafnfætis í samkeppni við önnur lönd. Þegar hins vegar kemur að kaupskipaútgerðinni og sérstaklega stöðu íslenskra farmanna, sem hefur fækkað á undanförnum árum, virðist vera allt önnur hugsun upp á teningnum. Löndin í kringum okkur, m.a. Færeyjar eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson vék að áðan, hafa búið til sérstakan fána sem skipum er flaggað undir og er kallaður hentifáni. Það hafa Danir líka gert og kalla hann DIS og Norðmenn kalla hann NIS og fellur í raun undir sérstaka skipaskráningu.

Svíar ákváðu hins vegar að fara aðra leið í þessum efnum. Í stað þess að stofna sérstaka skipaskrá ákváðu þeir að gera það sem fylgdi alþjóðlegu skipaskránum í öðrum löndum, að taka upp svokallaða nettólaunagreiðslu. Það hefur orðið til þess að farmönnum sem var að fækka mikið í Svíþjóð hefur fjölgað aftur á sænskum skipum.

Við vitum að Danir hafa haldið úti miklum siglingum og það er alveg rétt sem kom fram áðan að Danir og Norðmenn eru í meiri alþjóðlegri samkeppni í siglingum en Íslendingar. Það breytir hins vegar ekki því sem hefur einnig verið hér í umræðunni að íslensku skipafélögin hafa haldið því fram að samkeppnisstaða þeirra væri að ýmsu leyti verri en annarra er sneri að útgerð og mannskap. Það er alveg rétt eins og hér hefur verið bent á og í því sambandi hafa menn rætt um stimpilgjöld o.s.frv. Það er hins vegar svo komið að við þykjumst sjá það sem höfum fylgst með þessum málum á undanförnum árum, og ég veit að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson veit það jafn vel og ég, að smátt og smátt muni draga til þess að íslensk farmannastétt líði undir lok innan einhverra ára eða áratuga með óbreyttu fyrirkomulagi og að hér verði skip eingöngu mönnuð erlendum áhöfnum. Þær erlendu áhafnir munu eyða sínu kaupi í heimalöndum sínum og öll margfeldisáhrif af því koma þar fram. Þar eru líka greidd lægri laun en greidd eru samkvæmt íslenskum kjarasamningum.

Tilgangurinn með þeirri þáltill. sem hér er verið að ræða, að skipa fimm manna nefnd til að kanna hvernig breyta megi skattareglum og öðrum reglum sem lúta að útgerð vöruflutningaskipa þannig að íslenskar útgerðir sjái sér hag í að sigla skipum sínum undir íslenskum fána með íslenskar áhafnir, er að farið verði ofan í kjölinn á því hvort aðgerðir í skattalegu tilliti með sambærilegum hætti og ríkin í kringum okkur hafa gert --- og með sambærilegum hætti og beinlínis hefur verið hvatt til í Evrópusambandinu til þess að viðhalda evrópskri útgerð farskipa --- væri sú leið sem hægt væri að fara til þess að efla íslenska kaupskipaútgerð og tryggja atvinnuöryggi farmanna. Tillagan gengur út á að það verði skoðað. Ef það yrði hins vegar niðurstaðan af slíkri skoðun að breyting í þessa veru hefði engin áhrif til þess að efla íslenska útgerð og atvinnu varðandi farmenn og við stæðum enn á ný frammi fyrir því eins og varðandi stimpilgjöldin er náttúrlega sjálfboðið að menn færu ekki þá leið sem löndin í kringum okkur hafa farið.

En það verður að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að það er undarlegt í meira lagi ef þjóðirnar í kringum okkur, okkar helstu vináttu- og frændþjóðir, hafa ákveðið að fara þá leið að láta nettólaunin gilda fyrir ríkisborgara sína og þegna sína sem á skipunum starfa til þess að tryggja störfin og tryggja að þeir eyði tekjunum af útgerðarstarfseminni og auðvitað fjöldamörgum störfum sem fylgja því að útgerð sé öflug, í heimalöndunum, í stað þess að skipin verði mönnuð algerlega með erlendum áhöfnum. En því miður er það fylgifiskur þess þegar menn byrja á því að ráða háseta af erlendu bergi brotnu á íslensk skip, norsk eða dönsk að smátt og smátt verða engir hásetar til sem vilja mennta sig til að verða stýrimenn og skipstjórar vegna þess að það vantar alla reynslu og áhuga og þjóðin situr uppi með tapaða atvinnugrein.