Íslensk farskip

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 14:18:29 (4917)

2004-03-04 14:18:29# 130. lþ. 77.4 fundur 484. mál: #A íslensk farskip# (skattareglur o.fl.) þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði, það verður mjög fróðlegt að heyra svör útgerðaraðila þegar þeir verða kallaðir fyrir samgn. og spurðir hvort sú hugmynd sem við hreyfum hér og óskum eftir að verði skoðuð hafi einhverja breytingu í för með sér fyrir útgerðirnar. Munu útgerðirnar þá efla íslenska flotann undir íslenskum fána? Munu útgerðirnar skuldbinda sig til að ráða íslenska ríkisborgara á skipin sín?

Það er alveg rétt að talað var um stimpilgjöldin fyrir mörgum árum sem stóran kostnaðarlið útgerðarinnar. Því var breytt og það hafði ekki áhrif, því miður. Þess vegna lögðum við upp með það að búa hér til þáltill. þar sem yrði skipuð nefnd sem mundi skoða hvaða leiðir væru færar til að tryggja samkeppnisstöðu okkar og hvort það dygði til að ná þeim markmiðum sem við vildum ná. Ég tek undir það með hv. þingmanni að við erum að tala sennilega um 200 störf, ég gæti vel trúað því að við værum að tala um 200 ný störf í íslensku þjóðfélagi ef öll íslensku farmannastörfin væru mönnuð Íslendingum.

Varðandi hið sérstaka skip, olíuskipið Keili, sem núna er verið að manna rússneskri áhöfn, held ég, tek ég undir það og deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni að það er ótrúlegt að við skulum vera að fara í þetta far með olíuflutninga okkar við ströndina. Við erum að taka geysilega áhættu með því að gera þetta. Ég átta mig alls ekki á því hvernig íslenskum olíufélögum leyfist að stefna málinu í þessa hættu.