Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 15:10:38 (4928)

2004-03-04 15:10:38# 130. lþ. 77.5 fundur 520. mál: #A almenn hegningarlög# (kynferðisbrot gegn börnum) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að kynferðisafbrot gegn börnum er eitt það ógeðslegasta brot sem framið er í þjóðfélagi okkar. Það er a.m.k. mín skoðun. Ég tel að efni frv. að því er varðar fyrningarákvæði eigi fyllsta rétt á sér og tek þar af leiðandi undir efni frv.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi koma með inn í umræðuna sem mér finnst að menn ættu kannski að hugleiða þó að ég sé ekki með þeim orðum að tala um að brotin gegn ungu fólki, kynferðislega misnotkun, sé ekki jafnalvarlegur glæpur framinn af ungu fólki eins og eldra. Ég velti því hins vegar fyrir mér, virðulegi forseti, og væri fróðlegt að heyra sjónarmið hv. flm. við þeirri hugleiðingu minni hvaða staða er uppi í máli þegar t.d. ungur maður, 16--18 ára, fremur brot sem flokkast undir þau brot sem við erum hér að tala um gagnvart barni sem er undir 14 ára aldri. Svo líða kannski 40 ár og þá loksins opnar brotaþolinn fyrir það hvað skeði í æsku hans og málið kemur upp á borðið. Viðkomandi aðili, eins og í því dæmi sem ég dreg hér upp, var sjálfur ungur að árum þegar brotið átti sér stað, e.t.v. rúmlega 14 ára eða 16--18 ára, svo maður tali nú um aðila undir lögaldri eins og sagt er. Síðan gerist ekkert í 40 ár og brotaþolinn er kannski um fimmtugt en sá sem braut kannski sextugur, ég get sett dæmið svona upp. Þá velti ég fyrir mér hver staðan sé ef aldrei hefur verið hreyft við málinu í 40 ár. Þá er er ég ekki að gera lítið úr brotinu sem slíku. Ég tek heils hugar undir að kynferðisbrot eru einhver ógeðslegasti glæpur sem ég veit um gagnvart börnum og tek heils hugar undir að fyrir þau á að refsa. En ég velti þeirri stöðu fyrir mér sem gæti komið upp ef einhver í æsku hefði brotið af sér með þessum hætti, brotaþolinn ekki gert það uppvíst og svo líður þetta langur tími, eins og ég sagði, og sá sem braut á viðkomandi hefur að öllu leyti hagað sér eðlilega síðan og unnið þjóðfélagi sínu vel þó að hann hafi vissulega framið þennan óheillaglæp á ungum aldri. Síðan rústast bæði líf hans og brotaþolans, það er ekki auðveldara að koma fram með þetta þótt eftir 40 ár sé.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það er erfitt að ganga með það alla ævina að hafa verið misnotaður kynferðislega í æsku. Ég vildi aðeins að þetta sjónarmið kæmi hérna fram og ég velti fyrir mér hvort hugleiða ætti með einhverjum hætti að fyrningarleysi að því er varðar brot sem framin eru af yngra fólki en t.d. 18 ára eða 16 ára eigi að vara í 30 ár, 50 ár, eða hvar eigum við að draga þá línu ef við eigum að draga hana á annað borð? Þetta vildi ég einfaldlega láta koma hérna fram en að öðru leyti styð ég frv.