Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 15:45:14 (4933)

2004-03-04 15:45:14# 130. lþ. 77.6 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni fyrir það sem hann sagði í upphafi máls síns um þessa þingsályktunartillögu, um það góða mál sem hér er flutt inn til Alþingis til umræðu og úrvinnslu.

Hv. þm. spyr hvers vegna ég setji þarna inn áfangaskýrslu ekki fyrr en 1. janúar 2006. Jú, það var gert að vel athuguðu máli vegna þess að ég tel og það er samdóma álit margra að undirbúningstími að svona framkvæmd geti verið mjög langur. Menn hafa nefnt fjögur ár og menn hafa nefnt fimm ár. Svo eru aðrir sem nefna færri ár. Ég vildi setja þarna inn 1. janúar 2006 vegna þess að það er geysilega mikil vinna sem byggingarnefnd ---- ég vek athygli á því að hér er lagt til að kosin verði byggingarnefnd, ekki verkefnanefnd eða undirbúningsnefnd heldur byggingarnefnd. Sú nefnd þarf töluvert langan tíma til að vinna að undirbúningi og skila áfangaskýrslu eins og hér er kveðið á um, m.a. þarf auðvitað að halda mjög marga fundi og ræða við starfsfólk spítalans eins og ég sagði áðan. Mjög margir starfsmenn spítalans koma til landsins eftir nám erlendis með mikla sérgóða þekkingu á þörfum slíks sjúkrahúss, þ.e. á því hvað þarf á spítala eins og við viljum hafa hér sem landspítala Íslands, Landspítala -- háskólasjúkrahús. En við skulum líka hafa í huga að Landspítali -- háskólasjúkrahús er líka aðalsjúkrahús Reykvíkinga, höfuðborgarinnar, og þess vegna held ég að eðlilegt sé að tíminn sé þetta langur.