Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:32:28 (4944)

2004-03-04 16:32:28# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:32]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fæ stundum það hlutverk að hæla hv. þm. Pétri Blöndal. Það má hæla honum fyrir það að segja hug sinn um að þetta sé bara fyrsti bitinn í að koma fyrir kattarnef þessari menningarítroðslu sem hann kallar svo. Það er ágætt að menn segi hlutina eins og þeir eru.

Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki fyrir mér að þetta muni ganga almennilega. Mér finnst óvarlega farið með það sem ég vil kalla menningarfjársjóð, sem fólginn er í Ríkisútvarpinu og starfsemi þess. Ég held að ef menn færu þessa leið þá tækju menn meiri áhættu gagnvart þeim menningarfjársjóði og þeirri starfsemi en ég er tilbúinn til að skrifa upp á.

Mér finnst að sú samfellda starfsemi sem í Ríkisútvarpinu hefur verið eigi að halda áfram. Það kann vel að vera að hún úreldist í tímans rás og niðurstaðan verði sú að menn breyti þessu einhvern tíma. Ég álít að sá tími sé ekki kominn en ég held hins vegar að umræðan sem vakin er upp með tillögu af þessu tagi sé góð. Ég tel fulla ástæðu til að ræða málið á þeim grundvelli sem hér er lagt upp með. Þeir sem ekki vilja breyta þessu þurfa að glíma við að svara þeim rökum sem lögð eru fram með frv. og það er hið besta mál.

Ég hef hins vegar á tilfinningunni að bjartsýnin hafi verið heldur mikil hjá hv. þm. þegar hann ímyndaði sér að málið mundi hljóta framgang. Mér hefur heyrst á yfirlýsingum sumra valdamikilla flokksbræðra hans að það sé ekki í kortunum að þetta gangi fram í bili.