Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:36:31 (4946)

2004-03-04 16:36:31# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., SKK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla sem einn af flutningsmönnum frv., ásamt hv. þm. Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni, að leggja nokkur orð í belg varðandi efni þess og þær hugmyndir sem það byggir á.

Í upphafi langar mig að segja að það er svolítið sérstakt að við séum stödd á Alþingi árið 2004 að ræða um ríkisrekinn fjölmiðil, jafnvel að hnakkrífast um hvort eðlilegt sé að hið opinbera reki fjölmiðil. Ég hefði talið, miðað við þær breytingar sem hafa orðið, ekki bara í þessu þjóðfélagi heldur í öllum hinum vestræna heimi og sömuleiðis þeim heimi sem áður tilheyrði Ráðstjórnarríkjunum sálugu, að menn gætu sammælst um að það væri ekki hlutverk ríkisins að reka fjölmiðil. En svo er greinilega ekki. Þetta frv. er sett fram með það að markmiði að það verði samþykkt en ekki síður til að skapa málefnalegar umræður um þau atriði sem ég hef nefnt.

Eins og fram kemur í frv. er lagt til að gerðar verði breytingar á þremur lögum, þ.e. útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Málefni Ríkisútvarpsins hafa komið til umræðu á hinu háa Alþingi og ég hef tekið þátt í þeirri umræðu. Gerðar hafa verið tillögur um breytingar á stofnuninni eða fyrirtækinu, vegna þess að Ríkisútvarpið er fyrirtæki eins og hvert annað fyrirtæki að því undanskildu að eignarhaldið er í höndum ríkisins og það starfar á grundvelli ríkisábyrgðar. En þegar vikið er að hlutverki hins opinbera við rekstur fjölmiðla og því að það hlutverk verði endurskoðað þá hafa ýmsir fulltrúar stjórnmálaflokka, einkum vinstri flokkanna, brugðist ókvæða við og ávallt litið svo á að allar slíkar tillögur feli í sér tilræði við Ríkisútvarpið, menningarlega dagskrárgerð, fréttaöflun og svo mætti lengi telja. Þetta er gamall söngur sem við höfum oft heyrt í sölum Alþingis og sömuleiðis í þjóðfélaginu. Í frv. sem hér er til umræðu er þvert á móti ekkert slíkt að finna þrátt fyrir að öðru hafi verið haldið fram.

Ég skora á hv. þingmenn að kynna sér vandlega efni frv. sem hér er til umfjöllunar. Hér er ekki einungis lagt til að komið verði á raunverulegri samkeppni á fjölmiðlamarkaði, sem ekki er fyrir hendi í dag, heldur felur frv. einnig í sér tillögur sem leiða ættu til að innlend dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp mundi eflast. Frumvarpið felur ekki síður í sér kaupmáttarauka fyrir stóran hluta almennings. Yrði frv. að lögum mundi það leiða til þess að stórir hópar í þjóðfélaginu mundu við hver áramót eða mánaðamót hafa úr meiri fjármunum að spila en nú er. Þar skiptir mestu máli að hér er lagt til að hið svokallaða útvarpsgjald, eða afnotagjaldið, verði aflagt. Afnotagjöld Ríkisútvarpsins, sem eru skyldugjöld, nema alls 28.896 kr. á ári.

Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi fram að frv. er lagt fram á grundvelli þeirrar hugsjónar að ríkið eigi ekki að reka fjölmiðil. Það er kýrskýrt í málinu. Við flutningsmenn frv. erum eindregið þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk hins opinbera að reka útvarps- eða sjónvarpsstöðvar fyrir skattfé, ekki frekar en það er hlutverk ríkisins að gefa út ríkisdagblað, ríkistímarit, ríkisbækur og svo mætti lengi telja.

Ég hygg að það fyrirfinnist ekki sá maður á hinu háa Alþingi árið 2004 sem telur að stofna ætti ríkisdagblað á Íslandi. Um ríkisrekin dagblöð gilda nefnilega öll sömu rök og um rekstur Ríkisútvarps. Á þessu tvennu er ekki nokkur eðlismunur. Það væri ágætt ef einhver hv. þm. gæti bent mér eða öðrum flutningsmönnum á slík rök ef þau fyrirfinnast. Það er bara þannig að um þetta gilda öll sömu lögmálin og sömu rök. Ég hygg að jafnframt sé ekki nokkur þingmaður, a.m.k. ekki í þingsalnum, sem mundi leggja til í dag að stofnað yrði ríkissjónvarp eða ríkisútvarp ef slíkur fjölmiðill væri ekki starfandi á markaðnum. Mundi einhverjum detta það í hug í dag að stofna ríkisútvarp? Það held ég ekki. Ef sá maður fyrirfinnst þá er hann langt frá því að vera í takti við þjóðfélagið og svo mörgum árum og áratugum á eftir að hann yrði að hugsa sinn gang.

Kjarni málsins er sá að ríkið á ekki að standa í rekstri sem einkaaðilar eru fullfærir um að sinna. Það skiptir engu máli hvort um rekstur fjölmiðla er að ræða eða rekstur á öðrum sviðum þjóðfélagsins.

Virðulegi forseti. Efni þessa frv. er yfirgripsmikið og sjálfsagt væri hægt að fjalla nánast endalaust um einstaka þætti þess. Ég ætla ekki að gera það en vil víkja að nokkrum meginatriðum þess. Eins og fram kemur í greinargerð með frv. er megininntak þess í fyrsta lagi að útvarpsgjaldið, þ.e. afnotagjaldið óvinsæla, verði aflagt. Skylduáskrift landsmanna að fjölmiðlum lýkur verði frv. að lögum.

Það liggur fyrir og er óumdeilt að það að skylda alla eigendur sjónvarps- og útvarpstækja til að greiða afnotagjald til eins fjölmiðils skekkir fjölmiðlamarkaðinn. Það kemur í veg fyrir að þar ríki eðlileg samkeppni. Vilja menn ekki fara að huga að því hvort það sé ekki rétt að koma á eðlilegri samkeppni á fjölmiðlamarkaði? Er ekki kominn tími til þess?

Að mínu mati er fráleitt að skylda mann sem kaupir sér sjónvarpstæki með það að markmiði að horfa á efni tiltekinnar sjónvarpsstöðvar til þess að greiða afnotagjald til annarra stöðva. Að þessu vék hv. þm. Pétur H. Blöndal í ræðu sinni og gerði ágætlega grein fyrir því sjónarmiði.

Í frv. er gert ráð fyrir að ríkið verði ekki fyrir beinni tekjuskerðingu verði frv. að lögum vegna þeirrar lækkunar á persónuafslætti sem frv. gerir ráð fyrir. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert skýra grein fyrir þeim þætti í ræðu sinni. Hins vegar mun frv. leiða til skattalækkunar fyrir almenning, einkum þá hópa þjóðfélagsins sem búa við lægstu tekjurnar. Maður hefði haldið að nokkrir málsvarar eða hv. þingmenn sem telja sig, a.m.k. í umræðum um önnur mál, sérstaka fulltrúa hinna fátæku ættu að taka saman höndum með flutningsmönnum frv. og styðja það, sýna hug sinn í verki.

Í öðru lagi gerir frv. ráð fyrir að útvarpsráð fái fjárveitingar á fjárlögum og að starfsemi ráðsins verði breytt. Til þess að það sé ljóst þá gerir frv. ráð fyrir að við einkavæðingu Ríkisútvarpsins verði útvarpsráð skilið frá því fyrirtæki sem í dag heitir Ríkisútvarpið en yrði hlutafélag.

[16:45]

Hvað þýðir þessi breyting? Hún þýðir að þeir fjármunir sem í dag hafa staðið undir rekstri Ríkisútvarpsins munu renna beint til dagskrárgerðar og einkum innlendrar dagskrárgerðar á grundvelli útboða. Hér er með öðrum orðum ekki lagt til að ríkið dragi sig alfarið út úr dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp. Hér er lagt til að þeir fjármunir sem nú renna til reksturs Ríkisútvarpsins renni í nokkurs konar dagskrárgerðarsjóð sem einkaaðilar geta á samkeppnisgrundvelli keppst um að ná í. Til einföldunar má segja að sá sjóður sem hinu nýja útvarpsráði er ætlað að hafa umsjón með sé í sjálfu sér ekkert ósvipaður Kvikmyndasjóði. Það er mjög mikilvægt að þetta komi skýrt fram þannig að menn leggi ekki að jöfnu annars vegar útvarpsráð, eins og gert er ráð fyrir í frv., og hins vegar Ríkisútvarpinu hf., sem eflaust mundi skipta um nafn ef nýir eigendur kæmu að þeim rekstri.

Verði frv. að lögum gætu einkaaðilar á markaði keppt á grundvelli útboða um fjármagn úr þessum sjóði til dagskrárgerðar. Þar sætu allir þeir sem mögulega kynnu að koma að slíkri dagskrárgerð við sama borð. Slíkt fyrirkomulag mundi umfram það sem nú er gefa einkaaðilum, sem fram að þessu hafa ekki haft tækifæri og frv. gerir ráð fyrir að þeim verði veitt, tækifæri til að hasla sér völl á sviði dagskrárgerðar fyrir útvarp og sjónvarp. Má í því sambandi nefna leikhús og leikhópa, kvikmyndagerðarfólk, fjölmiðlamenn og annað listafólk og í rauninni hvern sem er í þjóðfélaginu sem vill standa í slíkri framleiðslu.

Í fyrirspurnatíma á Alþingi á mánudaginn benti hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson á það að fjármunir Ríkisútvarpsins til kaupa og framleiðslu á innlendu dagskrárefni á þessu ári væru uppurnir. Hv. þm. varpaði fram fyrirspurnum til hæstv. viðsk.- og iðnrh. um það með hvaða hætti væri hægt að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin. Yrði frv. sem hér er til umræðu að lögum yrði allur slíkur vandi leystur. Þeir fjármunir sem til staðar væru til innlendrar dagskrárgerðar væru margfaldir þeim fjárhæðum sem nú eru til ráðstöfunar til innlendrar dagskrárgerðar, vegna þess að í dag fara þeir peningar sem samkvæmt frv. rynnu til þessa nýja útvarpsráðs --- sem aðskilið væri frá Ríkisútvarpinu --- í rekstur stofnunarinnar eða fyrirtækisins, sem í dag heitir Ríkisútvarpið, rekstur fasteigna og tækja sem þar eru innanhúss, til framleiðslu á innlendu dagskrárefni og til kaupa á erlendu dagskrárefni. Ég geri ráð fyrir að í því útboðsfyrirkomulagi sem við erum að leggja til með frv. mundi meginhlutinn af þessum fjármunum, sem er sambærilegur við þá fjármuni sem renna til Ríkisútvarpsins í dag, renna til innlendrar dagskrárgerðar. Það hlýtur því hver maður að sjá að hv. þm. Ásgeir Friðgeirsson þyrfti ekki að leggja þær fyrirspurnir sem hann lagði fyrir hæstv. viðsk.- og iðnrh. aftur fram, yrði frv. að lögum.

Í þriðja lagi gerir frv. ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði einkavætt og það síðan selt. Það þýðir hins vegar ekki að Ríkisútvarpið verði lagt niður, það verður að koma skýrt fram, síður en svo. Fyrirtækið mun halda áfram starfsemi sinni. Hér er einungis lagt til að gerð verði breyting á eignarhaldi Ríkisútvarpsins þannig að í stað þess að ríkið eigi fyrirtækið eignist einkaaðilar það, og að eignarhaldið verði ekki síst í höndum starfsmanna þess. Einnig er rétt að taka fram að frv. gerir ráð fyrir að núverandi starfsmenn haldi störfum sínum hjá fyrirtækinu og réttindi þeirra verði tryggð.

Vikið var að eignarhaldi fyrr í umræðunni og þeirri spurningu varpað fram hvort það kæmi í veg fyrir að fjölmiðlafyrirtækið Norðurljós eignaðist Ríkisútvarpið. Ég geri ráð fyrir að ef eigendur þess félags og aðilar sem að því standa mundu festa kaup á Ríkisútvarpinu hf. --- vegna þess að gert er ráð fyrir að það verði hlutafélagavætt áður en það yrði selt og þessum tveimur félögum rennt saman --- mundi Samkeppnisstofnun hafa eitthvað um slíkan samruna að segja. Ég er ekki viss um að hann yrði heimilaður af hálfu Samkeppnisstofnunar og samkeppnisyfirvalda.

En hvort sem sá möguleiki er til staðar, að eitthvert tiltekið fyrirtæki úti í bæ gæti hugsanlega sölsað þetta fyrirtæki undir sig, eru það rök fyrir því að ríkið eigi að reka fjölmiðil? Auðvitað ekki. Að minnsta kosti er það mín skoðun að svo sé ekki. Ég get ekki séð að slík hugsanleg þróun réttlæti ríkisrekstur á fjölmiðli, ekki frekar en ef þessir tilteknu aðilar sem nú hafa fest kaup á tveimur af þremur dagblöðum mundu festa kaup á Morgunblaðinu, sem er eina --- Viðskiptablaðið er reyndar líka á markaði --- dagblaðið sem kemur út á hverjum degi. Ef þessir tilteknu aðilar mundu festa kaup á því blaði, mundum við bregðast við þeirri stöðu á markaðnum með því að stofna ríkisdagblað? Það efast ég um. Þessar spurningar allar, áhyggjur eða sjónarmið leiða ekki til þess að við komumst að þeirri niðurstöðu að ríkið eigi að standa í rekstri sem þessum.

Virðulegi forseti. Ég skora á hv. þm. að samþykkja frv. því að með samþykkt þess verður loksins komið á raunverulegri samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Ríkisútvarpið verður sjálfstæður og óháður aðili á markaðnum og þarf að standa sig í samkeppni og mun eflaust gera það hvort sem eignarhaldið er í höndum ríkisins eða annarra aðila. Aðilum á markaðnum mun ekkert fækka á útvarps- og sjónvarpsmarkaðnum því Ríkisútvarpið verður þar eftir sem áður verðugur þátttakandi í samkeppni við þá aðila sem fyrir eru og eiga vonandi eftir að koma inn á markaðinn í framtíðinni. Eðlileg samkeppni á auglýsingamarkaði verður einnig tryggð með frv. þessu og ég mundi halda að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, sem er nú ekki í salnum, sem hélt sína fyrstu jómfrúrræðu á þingi og lýsti því yfir að nauðsynlegt væri að gera breytingar á umhverfi á fjölmiðlamarkaði og hefur síðar sagt að ríkið ætti að fara út af þessum markaði, sá ágæti hv. þm. ætti að sjá sér fært að styðja frv. í ljósi orða sinna. Jafnframt mun frv. leiða til þess að innlend dagskrárgerð vaxi og dafni og að fleiri aðilar láti til sín taka við slíka framleiðslu en nú er.

Að lokum er ljóst að með þeirri niðurfellingu afnotagjaldsins sem ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal höfum farið yfir, og þeirrar lækkunar á persónuafslætti um 1.000 kr. á mánuði sem frv. gerir ráð fyrir, munu stórir hópar þjóðfélagsins finna fyrir umtalsverðri kaupmáttaraukningu og einkum þeir sem lægstar tekjurnar hafa. Niðurstaðan af ræðu minni er því í raun sú að verði frv. að lögum muni allir græða. Skattgreiðendur munu græða, dagskrárgerðarfólk mun græða o.s.frv. Ég tel því einboðið, eins og ég sagði áðan, að þingmenn kynni sér rækilega efni frv. Þetta snýst ekki bara um að selja Ríkisútvarpið, þetta snýst um að koma hér á eðlilegri samkeppni og gera fjölmiðlamarkaðinn eðlilegri og sanngjarnari en nú er.