Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:59:06 (4949)

2004-03-04 16:59:06# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði í ræðu minni að ég myndi ekki eftir öðru en að Ríkisútvarpið hefði mælst með hvað mestan trúverðugleik. Vel má vera að einstakar kannanir hafi sýnt annað. En almennt held ég að megi fullyrða að Ríkisútvarpið hafi haft hvað mestan trúverðugleik.

Ég var bara að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að þetta umhverfi hafi verið frjálst um nokkuð langt skeið, hátt í tvo áratugi, hefur engum tekist að toppa eða ná meiri trúverðugleik en ríkisfjölmiðlum. Það er kannski umhugsunarefni, því líklega skiptir hann hvað mestu máli. Ég var að vekja athygli á því að einkaaðilum hefur ekki tekist að ná meiri trúverðugleik en þessari stofnun, hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér, það er afar erfitt að fullyrða um hana. En þetta eru staðreyndir sem sagan geymir.