2004-03-08 15:03:01# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur gefið út svohljóðandi yfirlýsingu:

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði hefur ríkisstjórnin ákveðið eftirfarandi:

1. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að það fyrirkomulag varðandi fjármögnun starfsmenntasjóðs verkafólks sem gilt hefur frá árinu 2000 verði framlengt til ársloka 2007 þannig að á þessu tímabili komi greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði til starfsmenntasjóðanna í samræmi við fyrirliggjandi tillögur Samtaka atvinnulífsins, Starfsgreinasambands Íslands og Flóabandalagsins þar að lútandi.

2. Ríkisstjórnin lýsir yfir því að hún er reiðubúin að taka upp viðræður við sérstaka lífeyrisnefnd sem Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hyggjast koma á fót um hugsanlega aðkomu stjórnvalda að tilteknum þáttum er sú nefnd mun taka til meðferðar, m.a. að því er varðar verkaskiptingu milli lífeyrissjóða og almannatrygginga.

3. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að atvinnuleysisbætur hækki og verði frá og með 1. mars 2004 88.767 en hækki síðan um 3% 1. janúar 2005, 2,5% 1. janúar 2006 og 2,25% 1. janúar 2007.

4. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að almennt tryggingagjald lækki um 0,45% frá 1. janúar 2007 gegn því að Samtök atvinnulífsins samþykki að iðgjöld atvinnurekenda til sameignarlífeyrissjóða verði frá þeim degi 8%.

Þetta er yfirlýsing sú sem ríkisstjórnin gaf í tilefni af þeirri samningagerð sem varð á almennum vinnumarkaði í gær. Rétt er að taka fram að þessar yfirlýsingar voru gefnar eftir að átt hafði sér stað samráð við aðila vinnumarkaðarins á nokkrum undanförnum vikum í framhaldi af þeim niðurstöðum sem urðu við samningagerðina. Þó að auðvitað sé hér ekki um að ræða endalok samningagerðar í tilefni af því að samningar voru almennt séð lausir er svo litið til að þessi samningagerð sé mótandi að verulegu leyti varðandi samningagerð almennt á vinnumarkaði.

Hitt er hins vegar ljóst og menn verða að gera sér grein fyrir því að samningar eru háðir ýmsum fyrirvörum sem aðilar hafa komið sér saman um og auðvitað er sú yfirlýsing sem hér er gefin háð sömu fyrirvörum, þ.e. að samningagerðin haldi til fjögurra ára.

Ríkisstjórnin lítur þannig á að þegar allir þeir þættir sem ríkisstjórnin lofar að beita sér fyrir í tengslum við gerð kjarasamninganna eru komnir til framkvæmda að fullu verði útgjöld ríkisins á ári hverju milli 2,7 og 2,8 milljarðar kr. vegna kjarasamninganna. Ríkisstjórnin telur að það sé verjanlegt að slíkar fjárhæðir séu úr ríkissjóði látnar í tilefni þessarar kjarasamningagerðar vegna þess að mjög mikilvægt er að samningur sé gerður til svo langs tíma sem þarna er gert. Það tryggir áframhaldandi stöðugleika í landinu og áframhaldandi kaupmáttaraukningu sem verið hefur með allra mesta móti í þessu landi miðað við önnur lönd.

Jafnframt er rétt að fram komi að þegar ríkisstjórnin lýsti því yfir í stjórnarsáttmála sínum að á þessu kjörtímabili yrðu gerðar breytingar á þar til greindum sköttum til lækkunar var fram tekið að þær breytingar hlytu auðvitað að hafa hliðsjón af og tengjast fyrirvörum um að kjarasamningar almennt gæfu tilefni til þess að slík skattalækkun ætti sér stað. Það er mat ríkisstjórnarinnar að með þessum kjarasamningum, ef þeir verða mótandi fyrir aðra kjarasamninga, skapist skilyrði til þess að þau áform öll um skattalækkanir geti náð fram að ganga. Ljóst er að þær munu auðvitað að sínu leyti enn auka við þann kaupmátt sem þessir kjarasamningar leggja þá grundvöll að með því að skapa umgjörð stöðugleika og sátta í þjóðfélaginu.

Þetta er yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.