2004-03-08 15:13:11# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), SJS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er að sönnu ánægjuefni að náðst hefur saman um drög að kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og fjölmennasta sérsambands á almennum vinnumarkaði. Það á að vísu, og að sjálfsögðu, eftir að afgreiða þá samninga en það eru ýmis atriði í þeim ótvíræð fagnaðarefni. Ég vil þá sérstaklega nefna í fyrsta lagi styrkingu á lífeyrissjóðakerfinu í formi aukinna iðgjaldagreiðslna inn í sjóðina á næstu árum í áföngum.

Ég vil í öðru lagi nefna starfsmenntasjóðina sem unnið hafa mjög þarft verk og skipt miklu máli. Að sjálfsögðu hefði verið fráleitt að slá þar slöku við. Ríkið framlengir nú þátttöku sína í þeim í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð um nokkur ár en síðan er gert ráð fyrir því að þeir færist yfir á atvinnurekendur.

Í þriðja lagi er svo hækkun atvinnuleysisbóta sem að vísu er svo sjálfsögð og svo löngu tímabær aðgerð, og þó að meira hefði verið, að það ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að fagna því sérstaklega. Það vekur að vísu athygli að hlutur ríkisins í pakkanum þegar upp er staðið er mun minni en menn reiknuðu með. Það er augljóst mál að verkalýðshreyfingin hefur í þeim efnum gefið verulega eftir. Uppi voru hugmyndir um mun meiri þátttöku hins opinbera í að styrkja lífeyrissjóðina og létta t.d. af þeim greiðslu örorkulífeyris eða koma inn í þá mynd. Í reynd er framlag ríkisins fyrst og fremst það að þessu leyti að falla frá 0,45% hlutum af tryggingagjaldi gegn hækkun inngreiðslna atvinnurekenda í lífeyrissjóði.

Það er einnig ljóst að hér er samið um mjög lágar prósentur. Hér er verið að semja á hógværum nótum í trausti þess að verðbólgumarkmið Seðlabankans haldi næstu fjögur árin og að verðlag hreyfist nánast ekki neitt, um 2% eða svo innan ársins, enda verða að sjálfsögðu allar kjarabætur launamanna að engu samkvæmt þessum samningum ef verðlag hreyfist eitthvað að ráði. Þarna er að vísu um opnunartíma að ræða á miðjum samningstímanum en það er algjörlega ljóst að áhættan sem tekin er að því leyti er á herðum launamanna. Það ræðst nánast alfarið af verðlagsþróuninni hvað almennir launamenn, ef þessi samningur verður gerður, og þeir sem þar eiga í hlut fá út úr honum nema ef til kæmi endurskoðun á samningnum.

[15:15]

Það er líka athyglisvert að skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar eru alls ekki nefnd nema í framhjáhlaupi, eins og hæstv. forsrh. gerði. Það er öfugt við það sem formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., talaði ákaft fyrir fyrir kosningar, að semja ætti sérstaklega um skattalækkunarpakkann. Í umræðum hér á dögunum vísaði hæstv. fjmrh. því frá og hefur greinilega haft betur í þeim efnum. Enda hefur það væntanlega komið á daginn að verkalýðshreyfingin, eins og Starfsgreinasambandið, sem semur sérstaklega fyrir tekjulægsta fólkið í landinu, hefur ekki haft mikinn áhuga á skattalækkunarpakka ríkisstjórnarinnar. Af hverju ekki? Vegna þess að hann á fyrst og fremst að koma hátekjufólki og eignafólki til góða og er þar af leiðandi ekki sérstaklega í þágu þeirra umbjóðenda. Þar á bæ er væntanlega einnig skilningur á því að það er ekki endilega í þágu tekjulægra fólks í landinu að tekjur ríkissjóðs verði lækkaðar og kostnaðinum af opinberri samneyslu velt yfir á herðar notendanna.

Það er alveg ljóst að verðlagsforsendur og viðkvæmir þættir þar, eins og þróun gengismála, vaxta og fleiri þátta, munu fyrst og fremst ráða því hvort samningurinn skilar launamönnum einhverjum umtalsverðum kjarabótum.

Öfugt við síðasta ræðumann lýsi ég vonbrigðum yfir því að ekki skyldi nást meiri árangur í að hækka lægstu laun. Þó að kauptryggingin fari úr 93 þús. kr. í 100 þús. kr. og lægstu taxtar úr 88 þús. kr. í 96 þús. kr., eru það upphæðirnar sem við erum að tala um. Við erum að tala um laun til fullvinnandi fólks sem ná rétt 100 þús. kr. og af því eiga menn að borga einar 10--12 þús. kr. í skatta. Það er nú allt og sumt sem þarna er verið að semja um og síðan örlágar prósentuhækkanir á það næstu fjögur árin. Ég get ekki lýst sérstökum fögnuði eða mikilli ánægju með árangurinn að þessu leyti og allra síst þann 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, því að ljóst er að hér er að uppistöðu til verið að tala um laun sem falla í hlut kvenna á vinnumarkaði, þ.e. þessi lægstu laun. Ríkisstjórnin hefði einnig að þessu leyti, að mínu mati, getað komið myndarlegar að málum að tryggja betur stöðu þeirra, bæði hvað lífeyrisréttindi varðar og bein kjör þeirra sem lægst hafa launin.