2004-03-08 15:18:31# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:18]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Þau ánægjulegu tíðindi eru nú ljós að tekist hafa samningar á vinnumarkaði milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar, Flóabandalags, og Starfsgreinasambandsins hins vegar.

Hæstv. forsrh. hefur rakið innihald yfirlýsingar ríkisstjórnar í tilefni af þessum kjarasamningum og er sérstök ástæða til þess að fagna því og undirstrika ánægju með að tekist hafi hóflegir samningar á vinnumarkaði, samningar sem munu tryggja stöðugleika í okkar efnahafslífi og vonandi leiða til aukins kaupmáttar launafólks.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sér ekki ástæðu til að lýsa yfir neinni sérstakri ánægju með það enda hefði Bleik verið brugðið ef svo hefði verið.

Hæstv. forseti. Ég vil gera hækkun atvinnuleysisbóta að sérstöku umfjöllunarefni í tilefni af þessum kjarasamningum. (SJS: Hættur við að lækka?) Það er ástæða til að vekja athygli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á því að frá árinu 1991 hafa atvinnuleysisbætur ekki hækkað jafnmikið á einu ári eins og nú. Með þessari ákvörðun hækka atvinnuleysisbætur um 14,3% á þessu ári (SJS: Ánægjuleg ...) eða um 11.318 kr. Ég sé að það fer í taugarnar á hv. þm. og ekki nema von. (SJS: Ég er að fagna sinnaskipum ráðherrans sem ætlaði að lækka bæturnar í haust.)

Sá ráðherra sem hér stendur hefur líka lýst því yfir að hann vilji sjá breytingar á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni. Sú vinna er farin af stað og það fer sjálfsagt í taugarnar á hv. þm. líka.

Það er líka ástæða til að undirstrika að með þessari yfirlýsingu ríkisstjórnar verður lagt fram aukið fé til starfsmenntasjóða verkafólks. Í tengslum við kjarasamninga árið 2000 var tekin ákvörðun um að verja til þeirra aðgerða um 200 millj. kr. á því samningstímabili. (SJS: Við getum fagnað því.) Nú hefur verið tekin ákvörðun um að það verði um 400 millj. kr. Það er því ástæða til að fagna því líka og nú sé ég að hv. þm. er farinn að brosa.

Í tengslum við gerð þessara kjarasamninga hefur ríkisstjórnin sömuleiðis ákveðið að taka á málefnum útlendinga á vinnumarkaði. Við höfum lagt til við Alþingi að við nýtum okkur aðlögunarfrest vegna stækkunar Evrópusambandsins. Það skiptir auðvitað máli og liðkar til við gerð kjarasamninga.

Fleira mætti nefna, hæstv. forseti. Lífeyrismálin verða áfram til umfjöllunar milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins. Þar hefur tekist, með þessari yfirlýsingu, að stíga mjög mikilvægt skref.

Niðurstaðan er þessi: Hóflegir samningar á vinnumarkaði leggja grunninn að auknum kaupmætti fólksins í landinu. Þar hefur ríkisstjórnin lagt lóð sín á vogarskálarnar. Því hafa aðilar vinnumarkaðarins séð ástæðu til að fagna. Mér finnst ánægjulegt að heyra að hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samf., samfagnar okkur og vissulega væri skemmtilegra ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, mundi slást í hópinn með okkur og sjá til sólar á þessum ágæta degi.