2004-03-08 15:26:00# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka talsmönnum flokkanna fyrir góðar og málefnalegar undirtektir við þá atburði sem nú hafa orðið og þær ábendingar sem fram hafa komið.

Varðandi skattamálin vil ég nefna að auðvitað munu allar þær skattalagabreytingar sem gerðar verða koma félögum þessara samtaka og annarra á vinnumarkaði með einhverjum hætti til góða. Við vitum, þó það hljómi þannig að eignarskattar séu eingöngu fyrir þá sem mest eiga, að margt eldra fólk sem fyrir ráðdeild, dugnað og sparnað hefur til að mynda önglað fyrir sæmilegri íbúð, að þegar aldurinn færist yfir og tekjur minnka er eignarskatturinn, eins og hann birtist hér á landi, þessu fólki mjög íþyngjandi og erfiður, slíkt fólk hefur því mikið gagn af því að eignarskattur sé aflagður.

Matarskattur verður lækkaður niður í 7% og hefur þá lækkað á undanförnum árum úr 24,5% niður í 7%. Ljóst er að slík lækkun kemur ekki síst vel við þá sem minnst bera úr býtum vegna þess að hlutfallslega er stærstum hluta tekna þeirra varið til greiðslu á slíkum vörum, sem er augljóst þegar menn horfa til þess. Slíkar skattalagabreytingar og aðrar koma því öllum á vinnumarkaði til góða með einhverjum hætti.

Ég vil nefna þetta til sögunnar og held reyndar að forustumenn atvinnulífsins beggja vegna borðs hafi gert sér grein fyrir því að það væri einn af þáttunum sem mundu fást með skynsamlegum kjarasamningum, að þessar skattalagabreytingar yrðu gerðar.

Menn tala um hóflega kjarasamninga og svo sem allt í lagi að nota það orð. En við minnumst þess forðum tíð þegar kjarasamningar voru gerðir að fréttamenn spurðu gjarnan í framhaldi af samningunum: Eru þetta raunhæfir kjarasamningar? Hvað áttu menn við? Jú, menn höfðu slegist um háar tölur, stórar prósentur, sem litu kannski vel út í augnablikinu, en spursmál um hvort samningarnir voru raunhæfir eða ekki gekk út á það hvort samningarnir mundu halda gagnvart verðlaginu í landinu, eða hvort gengisfellingar og aðrir slíkir þættir í framhaldinu með reglubundnum hætti þyrftu að koma til.

Það sem nú er að gerast, ekki endilega í þessum samningi heldur með honum og með öðrum samningum, er að kjarasamningar eru almennt orðnir raunhæfir. Menn vilja frekar tryggja mestu kaupmáttaraukningu sem menn hafa séð, bæði í þessu landi og öðrum, á undanförnum áratug, fremur en að setja í samninga stórar tölur sem engin forsenda eða undirstaða er fyrir.

Þetta er hin mikla breyting sem orðið hefur og er ríkisstjórninni fagnaðarefni að mega taka þátt í því að leggja sitt af mörkum við gerð slíks kjarasamnings.

Að nýju vil ég færa talsmönnum flokkanna á þinginu þakkir fyrir málefnalega umræðu um þessa yfirlýsingu.