Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:36:18 (4966)

2004-03-08 15:36:18# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Hér hefur verið farið yfir og lýst ástandinu á framhaldsskólastiginu eftir að menntmrn. sendi bréf um að skólum beri að halda sig við þann fjölda nemenda sem búið var að skammta þeim af hinu sama ráðuneyti. Í raun er hér um að ræða fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum og í fyrsta skipti sem við horfum fram á það.

Það er alltaf gott þegar við skoðum slík mál að setja þau í samhengi og hæstv. ráðherra minntist á Suðurnes. Í framhaldi af þeim fréttum sem ég sá í morgun leitaði ég eftir stöðu mála hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og það er mat skólastjórnenda þar að þeir muni þurfa að vísa 150--200 nemendum frá skólavist á þessu ári.

Fjölgun á Suðurnesjum hefur að jafnaði verið um 1,5% á ári og raunfjölgun samkvæmt tölum Hagstofunnar í grunnskólum verður veruleg næstu tíu árin. Ef við bætum síðan við þeirri staðreynd að á Suðurnesjum er námsþátttaka ungs fólks lægst á landinu er ljóst að þörf verður á að taka við mjög auknum nemendafjölda á framhaldsskólastigi á næstu missirum en ekki hægt að draga úr fjölda þeirra eins og ráðuneytið virðist krefjast.

Ekki hefur verið um neitt bruðl að ræða í rekstri Fjölbrautaskóla Suðurnesja en skólinn hefur alla tíð verið innan fjárlaga og með lægstan kostnað á nemanda af sambærilegum skólum. Á næstu árum mun áfram fjölga jafnt og þétt ef staðreyndir eru skoðaðar og höfðinu ekki stungið í sandinn eins og nú tíðkast hjá ráðuneytinu. Ráðuneytinu er líka fullkunnugt um þá stöðu mála sem er uppi en virðist standa á sama. Alla vega er ekki að sjá neinn vilja til að leysa málin þannig að ekki þurfi að vísa frá nemendum eins og nú blasir við.

Í raun er það réttur allra barna að stunda nám á framhaldsskólastigi ekki síður en að það er skylda þeirra að gera það á grunnskólastiginu og það væri fróðlegt að sjá viðbrögð hæstv. menntmrh. ef eitthvað í líkingu við þetta gerðist hjá sveitarfélögunum, ef þau settu eitthvert nemendagildi á grunnskólana og vísuðu síðan nemendum frá ef fleiri nemendur ætluðu að koma þangað. Ég er hræddur um að þá mundi heyrast hljóð úr horni hjá hæstv. ráðherra.