Nemendafjöldi í framhaldsskólum

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 15:42:04 (4969)

2004-03-08 15:42:04# 130. lþ. 78.91 fundur 385#B nemendafjöldi í framhaldsskólum# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni að hæstv. ráðherra menntamála skuli hafa dregið í land og segi að það sé ekkert að marka hótunarbréfið sem greint var frá í Fréttablaðinu og Ríkisútvarpinu í gær af því að þar var alveg skýrt hvað átt var við. Þar var verið að segja mönnum að þeir fengju ekki að taka nemendur inn í skólana umfram það sem samið hafði verið um fyrir fram, ella þyrftu menn að beita fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla á Íslandi.

Það var annar tónn í ráðherra í gær eins og segir í Fréttablaðinu í dag, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að framhaldsskólanemendum kemur til með að fjölga að minnsta kosti fram til ársins 2008--2009 og við því þarf að bregðast.``

Í framhaldi af því kemur fram að þetta bréf sé sent til skólameistara svo þeir geti undirbúið einhvers konar fjöldatakmarkanir í skólana. Annan skilning er útilokað að leggja í það bréf sem hér er greint frá. En því ber vissulega að fagna að ráðherra segir að ekkert sé að marka bréfið sem skólameistararnir fengu í hendurnar á dögunum og hefur lýst því yfir að ekki verði um að ræða neins konar fjöldatakmarkanir í íslenskra framhaldsskóla þannig að menn geti haldið áfram að vinna sína vinnu án þess að sitja undir þeim hótunum sem merkja mátti í þessu bréfi frá menntmrn. til skólastjóra sem eins og stendur hér, ,,varar skólastjórnendur við að taka inn nemendur umfram umsaminn hámarksfjölda. Ekki má gera ráð fyrir aukafjárveitingum ...``

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að hann á að leita eftir leyfi forseta til að lesa upp skrifað mál. Ég vil jafnframt áminna hv. þm. um að ávarpa ráðherra eins og ber samkvæmt þingsköpum.)

Virðulegi forseti. Með leyfi forseta, stendur í Fréttablaðinu: ,,Ekki má gera ráð fyrir aukafjárveitingum vegna umframfjölda.`` Sá skilningur sem ráðuneytið og hæstv. menntmrh. virtust hafa í upphafi hefur því breyst allverulega og því ber vissulega að fagna.