2004-03-08 16:53:53# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu stjórnarfrv. sem hefur auðvitað fengið umfjöllun í báðum þingflokkum. Það er hér komið fram.

Varðandi tengsl samvinnunefndarinnar við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar þá hef ég ekki áhyggjur af því að þau verði neitt ankannaleg. Hlutverk nefndarinnar er að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Það blasir við að samkvæmt lögunum verður samstarf þar á milli. Ég heyrði reyndar að þingmaðurinn taldi að það þyrfti ekki að vera erfiðleikum háð enda er svo alls ekki.

Hæstv. forseti. Mér fannst þingmaðurinn gera því skóna að ráðuneytið hefði lítinn áhuga á þessari stofnun. Svo er alls ekki. Þetta lagafrv. má alls ekki skilja sem svo. Ég bendi á að mjög mikið starf er unnið á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, mjög gott og þarft starf sem við höfum stutt eins og okkur hefur frekast verið unnt. Stofnunin hefur t.d. verið í verkefni sem Norðurskautsráðið fól þeim við að skoða samfélagsþróun á norðurslóðum eða The Arctic Human Development Report, geysimikið verkefni. Stofnunin stendur vel og hefur verið að vinna mjög góð verkefni með stuðningi okkar. En frv. sem hér er flutt tengist því ekki á nokkurn hátt, þ.e. starfseminni innan stofnunarinnar.