Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:14:40 (4988)

2004-03-08 17:14:40# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:14]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Í frumvarpinu er lagt til að framlengd verði tímabundin heimild til að lækka vörugjald af bifreiðum með vélar sem nýta metangas eða rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu, svokölluðum tvíorkubifreiðum. Slík heimild var lögfest með lögum nr. 38/2000 og féll úr gildi um síðustu áramót. Rétt þykir hins vegar að framlengja heimildina enn um sinn eða til ársloka 2006.

Þar sem innflutningsverð tvíorkubifreiða er alla jafna nokkru hærra en hefðbundinna ökutækja eru þær illa samkeppnisfærar gagnvart hefðbundnum bifreiðum og með frv. er stefnt að því að tvíorkubifreiðar verði betur samkeppnisfærar á almennum markaði. Markmiðið með framlengingunni er að styðja áfram við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas, enda eru skaðleg áhrif þeirra orkugjafa á umhverfið mun minni en eldsneytis úr olíum. Einnig hefur verið bent á að notkun tvíorkubifreiða sé nauðsynlegt skref í frekari þróun í framleiðslu bifreiða sem eingöngu verða knúnar öðrum orkugjöfum en bensíni eða dísilolíu. Það byggist meðal annars á því að dreifikerfi fyrir aðra orkugjafa er enn svo gisið að ekki er unnt að reikna með almennri notkun slíkra bifreiða strax. Enn fremur eru ýmsar aðrar tæknilegar hindranir því til fyrirstöðu. Síðast en ekki síst er aukin notkun tvíorkubifreiða í samræmi við skuldbindingar Íslands gagnvart rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og þá stefnu stjórnvalda að auka hlut innlendra orkugjafa.

Örðugt er að áætla áhrif framangreindrar lagabreytingar á tekjur ríkissjóðs. Frá því að tímabundin heimild til lækkunar vörugjalds af tvíorkubifreiðum tók gildi með lögum nr. 38/2000 hafa um 50 bifreiðar af því tagi verið fluttar til landsins. Þrátt fyrir að gera megi ráð fyrir að innflutningur tvíorkubifreiða verði öllu meiri á næstu þremur árum en hingað til eru slíkar bifreiðar almennt dýrari en venjulegar bifreiðar og því líklegt að hreint tekjutap ríkissjóðs verði óverulegt.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.