Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:16:57 (4989)

2004-03-08 17:16:57# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að þetta frv. verði samþykkt á Alþingi. Það felur í sér framlengingu á bráðabirgðaákvæði þar sem verið er að undanþiggja tilteknar bifreiðir vörugjaldi, þetta eru bifreiðir sem nýta óhefðbundinn orkugjafa. Þeir óhefðbundnu orkugjafar sem þetta frv. tekur til eru einungis metangas eða rafmagn.

Hæstv. ráðherra sagði í sinni ágætu framsögu að markmiðið með því að framlengja bráðabirgðaákvæðið væri að styðja áfram við öra þróun í hönnun og framleiðslu ökutækja sem geta nýtt rafmagn og metangas. Það er í sjálfu sér ákaflega lofsvert markmið. Nú er það svo að það eru fleiri tegundir óhefðbundins eldsneytis sem menn eru að nýta, eins og vetni. Við Íslendingar höfum tekið sérstakt frumkvæði á því sviði.

Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh.: Af hverju nær þetta ákvæði ekki til vetnis? Í öðru lagi: Eru einhver ákvæði í dag þar sem fjmrh. er veitt heimild til að undanþiggja bíla, sem eru knúnir að einhverju leyti af vetni, opinberum gjöldum?