Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:22:22 (4992)

2004-03-08 17:22:22# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:22]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa mikilli ánægju með þetta frv. Það felur í sér að það er einfaldlega verið að framlengja þær undanþágur sem gilt hafa um vistvæn ökutæki. Þær hafa í rauninni ráðið úrslitum hvað það varðar að hingað eru þegar komnir þrír strætisvagnar og meira er í undirbúningi. Ísland hefur tekið ákveðna forustu í því að vera tilraunavettvangur fyrir þessa nýju tækni og það er einmitt það sem við erum að bjóða. Við erum að bjóða okkar smáa þjóðfélag sem tilraunvettvang, heppilegan vettvang til þess að gera tilraunir með nýja tækni. Það er ekki síst fyrir þá ákvörðun ríkisstjórnar og Alþingis að setja ákvæði eins og þetta, sem var bundið sólarlagsákvæði, sem við höfum náð þeim árangri sem raun ber vitni. Þess vegna ber að fagna því að undanþágurnar skuli framlengdar.

Hér var minnst á að nauðsyn bæri til að fara yfir og móta allsherjarstefnu í málinu. Þá er rétt að minna á að sú vinna á sér stað nú þegar. Þegar hefur verið samþykkt þál. á hv. Alþingi og einmitt er verið að vinna að framtíðarlausn hvað varðar fjármögnun á vegakerfinu, hvað varðar undanþágur og þar fram eftir götunum. Að þeirri vinnu koma fulltrúar einna sex ráðuneyta, ef ég man rétt, auk fyrirtækisins Íslenskrar nýorku. Ég vænti þess að niðurstöður þeirrar vinnu sjáist mjög fljótlega og þá getur þingheimur tekið afstöðu til þeirra. Þar erum við hins vegar að tala um langtímafyrirkomulag en þetta frv. hér er í rauninni að bregðast við því sem er að gerast í núinu.

Að lokum, virðulegur forseti, get ég ekki stillt mig um að leiðrétta eitt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem ég veit að er einlægur stuðningsmaður vistvænna ökutækja. Hann vék að því að hér hefði ekki verið minnst á vetnisbíla, hér væri aðeins talað um metangas og rafmagn, en það er nú svo að vetnisbílar eru flokkaðir sem rafmagnsbílar. Munurinn á þeim og hinum hefðbundnu rafmagnsbílum, sem sækja rafmagn sitt í rafurkerfi landsins og er bara stungið þar í samband, er sá að með vetnistækninni framleiða vetnisbílarnir sitt eigið rafmagn í stað þess að sækja það inn á netið. Þó að hér sé einungis talað um rafmagnsbíla er átt við vetnisbíla, enda er það fyrst og fremst hugsunin í góðu samráði við hið framsækna fyrirtæki Íslenska nýorku.