Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:31:42 (4996)

2004-03-08 17:31:42# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:31]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt þessi yfirgangstími, en vonandi ekki yfirgangur, sem málið snýst um. Segja má að frv. sem hér er í umræðu og hefur kallað á þessa ágætu umræðu um vetnisbíla og aðra, miði einmitt að því að það verði meira aðlaðandi fyrir almenning en ekki síst fyrir þá erlendu aðila sem við höfum náð samstarfi við og munum ná samstarfi við að koma með þessi tilraunaökutæki hingað til landsins. Það er næsta skref og þar hefur okkur orðið verulega ágengt og á eftir að verða enn betur ágengt. En það verður væntanlega verkefni þeirrar nefndar sem hér er iðulega vitnað til að koma með tillögur og hugmyndir um það hvernig við eigum að bregðast við í framtíðinni þegar fjöldaframleiðslan er hafin og þá munu þessir bílar verða á mjög samkeppnisfæru verði við aðra.

Við erum núna að tala um fyrsta tímabilið þar sem Íslendingar bjóða sig fram sem tilraunavettvang fyrir nýja tækni. Hér er auðveldara að gera tilraun vegna smæðar okkar, reynslu af því að skipta um orkugjafa og vegna smæðar samfélagsins, alveg eins og við höfum gert hvað varðar jarðvarmann þar sem vísindamenn okkar eru með þeim fremstu í heimi. Við höfum byggt upp þekkingu og reynslu og höfum síðan flutt út og erum að flytja þá þekkingu út til annarra landa. Og það er það sama sem við erum að bjóða í sambandi við vetnistæknina og frv. er mjög mikilvægur liður í því. Um það er ekki ágreiningur.