Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:37:37 (4998)

2004-03-08 17:37:37# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en tek undir það sem menn hafa sagt um frv. að það er hægt að fagna því að það skuli lagt fram og að menn skuli hugsa fram í tímann hvað varðar þessi málefni. Mér finnst rétt að grípa þetta tækifæri og tala líka um það sem við höfum ekki staðið okkur nógu vel í. Við höfum engan veginn staðið okkur í því að reyna að hafa áhrif á bifreiðaeign hér, nýtingu á orku og mengun og annað slíkt sem hægt er að gera með með því að hafa áhrif á hvaða bílar eru notaðir og hvaða eldsneyti er notað. Það er óhætt að segja að einhver mesta hörmungarsaga sem verið hefur í þinginu er hvernig ríkisstjórnir liðinna ára hafa bögglast með olíugjaldið.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjmrh. að því á hverju menn eigi von núna. Nú er þetta mál búið að veltast í Alþingi í 12 eða 13 ár eða eitthvað svoleiðis. Menn hafa lagt fram ný og ný frv., stundum hafa þau verið samþykkt og lögin síðan dregin til baka.

Hæstv. forseti. Er vitneskja fyrir hendi um það hvort hæstv. fjmrh. er hér og heyrir mál mitt? Já, nú sé ég það, hæstv. forseti, ég þarf ekki að fara í grafgötur með það. --- Mig langar til að fá svar við þeirri spurningu hvort þetta mál sé enn einu sinni strand og menn hættir við í bili. Eða hvort ná eigi fram þessu málefni sem menn hafa verið að veltast með, eins og ég hef sagt, um olíugjaldið, ég fæ örugglega svar við því á eftir.

Svo finnst mér ástæða til þess að benda á það sem oft hefur verið bent á í þinginu að það mætti spara svolítinn tíma í umræðum með því að ræða saman samstæð mál eins og það málefni sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi áðan og málefni sem liggur hér fyrir af svipuðu tagi um vegslit þar sem er verið að gera ráð fyrir ýmsum ráðstöfunum til þess að hafa áhrif á hvaða bílar eru notaðir, bæði í þeim tilgangi að spara orku og minnka mengun og líka að minnka vegslit. Þessi pólitík hefur verið afskaplega lítið stunduð af stjórnvöldum á umliðnum árum og ekkert verið að gerast nema það að menn hafa hnoðað og þæft þetta olíugjald öll þessi ár og aldrei hefur neitt gerst í málinu. Nú hlýtur að vera komið að því að fá yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra um hvað standi til í þetta skiptið hvað það mál varðar.

Ég tek undir þetta mál og það sem sagt hefur verið í umræðunum, en þetta er svolítið eins og að byrja á að leggja veginn hinum megin við ána en smíða ekki brúna samhliða eða áður því við höfum verið að fleygja frá okkur miklum verðmætum undanfarin ár með því t.d. að nota ekki dísilbíla hér, með því að hafa ekki áhrif á það að almenningur kaupi bíla sem eyða minni orku og með því að reyna ekki að hafa áhrif á mengun og vegslit og annað slíkt með pólitískum ákvörðunum.

Ég vildi koma þessu að og fyrst og fremst óska eftir svari við þeirri spurningu hvort við þingmenn á hv. Alþingi og þá sérstaklega þeir sem eru í samgn. þingsins fái þetta verkefni í vetur sem svo lengi hefur verið í höndum Alþingis.