Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:45:04 (5001)

2004-03-08 17:45:04# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:45]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Aðeins nokkur orð um það sem hér fór á milli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og hæstv. fjmrh. í stuttu andsvari um olíugjaldsfrumvarpið svonefnda sem eins og hér kom fram hjá hæstv. fjmrh. var á verkefnalista hæstv. ríkisstjórnar og á að leggja fram á þessu þingi.

Fyrir það fyrsta vil ég segja það, virðulegur forseti, að ég er ekkert mjög ósáttur við það að þetta frv. sé ekki komið fram eins og það hefur verið boðað í fjölmiðlum frá hendi hæstv. ríkisstjórnar. Þá á ég auðvitað við það að menn ætla að taka hér upp olíugjald sem er gott og góðra gjalda vert með þeim annmörkum þó sem á því eru. Það er gert eftir því sem sagt er m.a. til þess að kalla fram þann möguleika að fólk fari að kaupa litlar dísilbifreiðar o.s.frv. En annmarki, virðulegi forseti, er á því frv. sem hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að leggja fram, eins og það var boðað, ef taka á upp tvöfalt kerfi gagnvart flutningastarfsemi í landinu. Því vil ég nota tækifærið hér og nú og m.a. vegna þess að næsta mál á dagskrá þessa þingfundar er afnám flutningsjöfnunargjalds á sementi sem hæstv. iðnrh. mun fjalla um á eftir og flytja.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. sem hér er viðstaddur þessa umræðu hvort það sé enn þá ætlun ríkisstjórnarinnar að leggja fram þetta frv. með þessum mikla ókosti, þ.e. að vera með flutningabíla, bíla stærri en 10 tonn, líka á mæli og vera með tvöfalt kerfi. Ég ætla rétt að vona að hæstv. fjmrh. geti komið hér upp og sagt að ríkisstjórnin sé að hörfa frá þeirri vitleysu vegna þess að það liggur í augum uppi að ef svo verður þá mun það hækka flutningskostnað, en hinn ráðherrann sem staddur er í þessum sal, hæstv. iðnrh., boðaði mjög í kosningabaráttu --- þó að ekkert bóli nú á framkvæmd þess --- að hún ætlaði að koma með aðgerðir til að lækka flutningskostnað í landinu.

Við höfum stundum sagt það að eins og flutningskostnaður hefur þróast hér í landi með mikilli skattheimtu ríkisins, hins opinbera, að hann sé einn versti landsbyggðarskattur sem í gangi er um þessar mundir. Segja má, virðulegi forseti, að ef olíugjaldsfrumvarpið með mæli á flutningabíla kemur líka eftir þá breytingu sem hæstv. ríkisstjórn gerði í upphafi þessa þings, þ.e. að hækka olíugjaldið sem fór þráðbeint út í verðlagið og hefur haft í för með sér hækkun á flutningsgjöldum, þá hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir því að flutningsgjald getur hækkað um allt að 25% að mati sérfróðra manna sem starfa í þessari grein.

Ég ætla rétt að vona það, virðulegi forseti, af því að ég get rætt þetta mál nú á hinu háa Alþingi að viðstöddum fjmrh. sem vill fá peninga í sinn ríkiskassa af flutningastarfsemi --- hér er svo viðstaddur líka hæstv. iðnrh. sem hefur boðað að það eigi að jafna eða lækka flutningskostnað á landinu --- að það sé svona verið að toga þetta frá vinstri til hægri, að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera. Ég ætla rétt að vona það. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjmrh. sem hér er að fylgja úr hlaði frv. sínu um vetnisbíla og fleira, hvort málið sé að taka þeim breytingum --- nú heyrir maður það, virðulegi forseti, að málið sé stopp í öðrum ef ekki báðum þingflokkum ríkisstjórnarinnar út af þeim annmörkum sem ég er hér að nefna gagnvart olíugjaldsfrumvarpinu --- hvort þessi stærsti ókostur þar verði tekinn út. Í öðru lagi spyr ég, ef svo er ekki, þ.e. ef hæstv. ríkisstjórn sér sér ekki fært að taka hann út, hvort við eigum þá ekki hreinlega bara að stoppa við með olíugjaldsfrumvarpið, hætta við það en endurbæta þungaskattskerfið og búa þar til gjaldflokka fyrir minni bíla. Það mundi gera það að verkum að hagkvæmara yrði að kaupa minni bíla með dísilvél.

Virðulegur forseti. Þetta vildi ég leggja inn í þessa umræðu vegna þess að umrætt olíugjaldsfrumvarp bar á góma og svo skemmtilega vill til að þetta má ræða á þessum nótum og líka vegna þess að við ætlum að ræða hér um flutningskostnað á sementi, verðjöfnun á flutningi á sementi. Það verður rætt hér á eftir. Þó svo að ekkert bóli á flutningsjöfnunarframkvæmd eða lækkun flutningskostnaðar frá hendi hæstv. ríkisstjórnar þá ætla ég rétt að vona að hæstv. fjmrh. fari ekki að koma með frv. hér inn sem geri það að verkum að flutningskostnaður muni hækka verulega, eins og ég nefndi áðan.