Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:50:59 (5002)

2004-03-08 17:50:59# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það var nú heldur verra þegar við erum að ræða hér ágætt frv. sem virðist vera góð samstaða um að hv. þm. Jóhann Ársælsson skyldi hafa ýtt á þennan takka í félaga sínum Kristjáni L. Möller og hleypt honum af stað í almennri olíugjaldsumræðu sem er ekki hér á dagskrá.

Ég hef upplýst það í þessari umræðu sem svar við fyrirspurn að þetta mál er í undirbúningi eins og hefur legið fyrir lengi. Það var lagt fram í hittiðfyrra sérstakt frv. um þetta mál sem síðan hefur verið til skoðunar bæði á vettvangi ríkisstjórnarinnar en jafnframt hjá öllum hagsmunaaðilum sem hafa fengið þetta mál til umsagnar. Það er úr þeim umsögnum sem verið er að moða núna ásamt nýjustu upplýsingum um framþróun á þessu sviði í öðrum löndum, þ.e. tæknibreytingar og annað sem skiptir þarna verulegu máli.

Í frv. sem var lagt fram fyrir tveimur árum var gert ráð fyrir því að stærstu bílar mundu áfram vera með mæli. Það er út í hött að kalla það tvöfalt kerfi. En það er mest af öllu út í hött að tala um flutningskostnaðarhækkanir af þeirri stærðargráðu sem hv. þm. Kristján L. Möller reiddi hér fram algjörlega tilefnislaust. Að öðru leyti ætla ég ekki að segja eitt einasta orð um þetta frv. hér í þinginu fyrr en það verður að þingskjali, fyrr en það kemur hér fram frv.

Það er algjörlega óeðlilegt, herra forseti, að taka hér langan tíma undir tilteknu þingmáli til að ræða eitthvert allt annað mál sem er ekki hér á dagskrá. Þetta er óeðlilegt.