Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:58:36 (5005)

2004-03-08 17:58:36# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:58]

Jón Bjarnason (andsvar):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því hvort ráðherrann hefði ekki talið skynsamlegra að bíða með þessar breytingar á jöfnun flutningskostnaðar á sementi þangað til hér hefðu verið kynntar samræmdar aðgerðir til jöfnunar á flutningskostnaði í landinu.

Við minnumst þess hér frá liðum vetri að þá lagði hæstv. samgrh. fram skýrslu um flutningskostnað í landinu. Þar kom fram að munur á flutningskostnaði sem lagðist á íbúa landsins eftir því hvar þeir bjuggu var kannski 50, 70 og upp í 100%. Þá var einmitt rætt um að vinda ætti bráðan bug að því að finna leið til þess að jafna þennan kostnað og draga úr þeim mikla mismun sem landsmenn búa við vegna þessa háa flutningskostnaðar. Það er ekki einungis svo að flutningskostnaðurinn sjálfur sé hár heldur margfaldast þetta líka með skattlagningu af hálfu ríkisins á flutningskostnaðinn. Þetta var gert að kosningamáli af hálfu bæði Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fyrir síðustu kosningar og sagt að eitt það brýnasta sem taka ætti á í sambandi við jöfnun á búsetu og atvinnuskilyrðum úti um land væri jöfnun flutningskostnaðar. En nú er bara fyrsta mál sem hæstv. ráðherra flytur hér að fella niður þá jöfnun sem þó var fyrir hendi, þ.e. varðandi sementið. Hefði ekki verið nær, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra hefði drifið hér inn frv. um jöfnun flutningskostnaðar í staðinn fyrir að drífa hér inn frv. til þess að fella niður þá litlu jöfnun sem í gangi er?