Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:00:45 (5006)

2004-03-08 18:00:45# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:00]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur talsvert til síns máls að því leyti að það hefði ekki verið óskynsamlegt að láta þetta fylgjast að. Hins vegar er staðreyndin sú, eins og ég hef sagt frá í þinginu, að komi til þess að teknir verði upp styrkir vegna sýnilegs flutningskostnaðar fyrirtækja sem eru staðsett á landsbyggðinni og eru fyrst og fremst með markaðsvöru sína á höfuðborgarsvæðinu þá þarf það að hafa fengið samþykkt Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem um styrki er að ræða. Meginreglan á Evrópska efnahagssvæðinu er sú að styrkir eru óheimilir en hins vegar eru ákveðnar undantekningar frá því, m.a. gæti það átt við um styrki til byggðamála. Málið er til umfjöllunar hjá áðurnefndri stofnun. Ég get ekki alveg svarað því á þessari stundu hvenær við getum gripið til aðgerða í þessu sambandi enda hefur ekki verið tekin pólitísk ákvörðun um að fara út í þessar styrkveitingar. En málið er samt sem áður í ákveðnum farvegi.

Hér er að nokkru leyti um barn síns tíma að ræða, þá á ég við jöfnun á flutningi á sementi. Jöfnunaráhrifin eru ekki nema 0,4--0,6% vegna þess að sementskostnaður við byggingu húsa er 4--5%. Ég tel því að hér sé ekki um stórmál að ræða. Þar að auki kostar flutningsjöfnunarsjóðurinn, þ.e. reksturinn á honum, 4--5 millj. kr. á ári. Þetta er því ekkert stórmál í mínum huga.