Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:06:44 (5009)

2004-03-08 18:06:44# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. hefur fylgt úr hlaði frv. um að leggja niður jöfnun á flutningskostnaði á sementi. Það má með sanni taka undir það með hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem fram kom í stuttu andsvari áðan, að auðvitað hefði verið meiri myndarbragur á því ef hæstv. ráðherra hefði verið búinn að sýna eitthvað af þeim kosningaloforðum sem Framsfl. reið með um héruð. Þar voru tillögur þar sem tekið var undir það sem sá sem hér stendur hefur mikið fjallað um, þann landsbyggðarskatt, ósanngjarna skatt, sem flutningskostnaður er. Sá kostnaður leggst þyngst á þá sem þurfa að flytja hvort sem eru nauðsynjar eða vörur til endurvinnslu eða vörur suður á markað. Það hefði verið meiri bragur á því ef hæstv. iðnrh. hefði verið búinn að sýna eitthvað í þeim efnum.

Hér er um að ræða gamalt kerfi sem varð til með lögum árið 1973, lögum um jöfnun á flutningskostnaði á sementi. Það er greinilegt að þá hafa miklir jafnaðarmenn verið á þingi og beitt sér fyrir þessu. En í athugasemdum í þessu frv., frá þeirri nefnd sem iðnrh. skipaði til að fjalla um málið, kemur fram að olía er eina vörutegundin, fyrir utan sement, sem ríkið heldur úti sérstöku flutningsjöfnunarkerfi fyrir.

Fyrst ég nefni flutningsjöfnun á olíu mætti spyrja hæstv. iðnrh. nánar út í það. Ein af meginröksemdum hennar var að ekki væri hvati til að flytja sement á hagstæðastan máta vegna þessarar flutningsjöfnunar. Með öðrum orðum var gefið í skyn að þeir aðilar sem flytja sement geri það á óhagkvæman hátt vegna þess að þeir geti sótt svo og svo mikið til ríkissjóðs í flutningsjöfnun, eins og við sjáum á fskj. I með frv. Þá vil ég spyrja: Megum við eiga von á að hæstv. ráðherra komi einhvern tímann á þessu þingi með svipað frv. um að leggja niður flutningsjöfnun á olíu? Það er óskandi að svo verði ekki.

Ég vil hins vegar taka skýrt fram að ekki er hægt að líða að nokkurt kerfi sem sett er til jöfnunar á flutningskostnaði sé misnotað eða að menn nýti ekki hagkvæmustu flutningsleiðir sem hægt er að nota. Til að koma í veg fyrir það eigum við að hafa eftirlitskerfi, til að fylgjast með því að ekki sé farið að eins og hæstv. ráðherra gaf í skyn. Með þessu á að vera öflugt eftirlitskerfi. Það á ekki að vera allt of flókið að fylgjast með því hvort menn misnoti kerfið og koma í veg fyrir það ef svo er. En það má aldrei vera röksemd eða skjól ríkisvaldsins fyrir því að leggja niður slíka flutningsjöfnun eins og hér er, að einhverjir aðilar í kerfinu misnoti það. Við ættum frekar að finna aðferðir til að koma í veg fyrir misnotkun eða refsa þeim sem gera það ítrekað með því að þeir fái þá ekki að stunda flutninga.

Ég geri líka lítið með rekstrarkostnaðinn við flutningsjöfnunarsjóðinn sem er á bilinu 4--5 millj. kr. Sjóðurinn er, ef ég skil þetta rétt, vistaður í iðnrn. og fylgst með því þar. Það er heldur ekki röksemd fyrir þessu.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í frv. eru útgjöld flutningsjöfnunarsjóðs um 156 millj. kr. árið 2002. Árið þar á undan voru það 219 milljónir og þar á undan, eins og fram kemur í þskj. 1019, 160--190 millj. kr. sem hafa verið notaðar til að jafna flutningskostnað. Í athugasemdum með frv. kemur fram að mesti kostnaðurinn hafi verið vegna flutnings á sementi til Norðurlands eystra og Austurlands, þ.e. þessara gömlu kjördæma. Hér kemur fram að í kringum 42 millj. kr. hafi farið þangað. Til Norðurlands eystra voru flutt 9 þús. tonn og niðurgreiðsla á flutningi þangað var um 28 millj. kr. Til Austurlands voru flutt um 3.200 tonn og niðurgreiðsla upp á 15 millj. kr. Hins vegar voru ekki flutt nema 788 tonn á Vestfirði árið 2002.

Virðulegi forseti. Taflan sem birt er í frv. segir okkur líka mikið um þróun byggðamála í landinu. Ég gæti tekið Vestfirði sem dæmi í þessum efnum. Þangað er ekki mikið flutt af sementi sem er til marks um að þar er ekki jafnmikið um framkvæmdir sem krefjast þess að sement sé notað. Þetta er enn ein vísbendingin um það hvernig ákveðin landsvæði hafa orðið út undan í því góðæri Íslandssögunnar sem er núna. Það þrengir sífellt að hinum dreifðu byggðum og það kemur einnig fram í þessu máli.

Hér er getið um að með því að leggja sjóðinn niður vonist menn til þess að verð á sementi hækki ekki óheyrilega mikið á landsbyggðinni. Menn ætla þar að treysta á samkeppni á markaðnum, samkeppni milli tveggja aðila. Annars vegar er það gamla Sementsverksmiðja ríkisins, sem ég man ekki hvað heitir um þessar mundir, það gamla góða fyrirtæki uppi á Akranesi, og hins vegar innflutt sement frá Danmörku, Portland-sementið. Menn treysta á að samkeppni á markaðnum lækki þennan kostnað. Ég er ekki svo viss um að það verði reyndin á mörgum stöðum á landsbyggðinni. Því miður. Ég er ekki viss um að það magn sem þarna er verið að selja sé það mikið að þessir tveir aðilar muni slást um að selja það. Eins er sementið oft flutt í litlum einingum, sem kemur heldur ekki til með að lækka verðið.

Hér kemur einnig fram að sementskostnaður sé ekki nema 2--3% af byggingarkostnaði steinsteyptra húsa. Það er vafalaust alveg hárrétt. En það dugir ekki sem röksemd fyrir því sem hér er verið að gera. Sement er notað til ýmissa annarra hluta á landsbyggðinni en að byggja hús. Og því miður, eins og áðan kom fram í tölum um sementsflutninga til Vestfjarða árið 2002, það voru 788 tonn, er ekki verið að byggja svo mikið.

[18:15]

Þetta vildi ég láta koma fram og ég leyfi mér að efast um þá ósk sem hér kemur fram um að samkeppni á markaðnum muni halda þessu niðri.

Inn í þetta blandaðist áðan flutningskostnaður, hvort sem er á sementi eða öðru, og var töluvert mikið rætt um hann í aðdraganda kosninga. Ríkisstjórnin notaði sinn hátt í byggðamálum, þ.e. að skipa nefnd, nefnd sem skilaði enn einni skýrslunni um aðgerðir í byggðamálum, í þessu tilfelli um að lækka landsbyggðarskattinn, þessa ósanngjörnu skattheimtu ríkisvaldsins á flutningastarfsemi. Mikil og góð skýrsla kom en ekkert hefur orðið úr framkvæmdum eftir það nema að málið er í skoðun og hæstv. iðnrh. hefur sagt á Alþingi og annars staðar að hún vilji beita sér fyrir upptöku á einhvers konar flutningsjöfnunarsjóði í þessum efnum. Hér kom fram áðan m.a. enn ein staðfestingin á því að þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra er með um þetta eru stopp úti í Brussel.

Ég hef ekki hugmynd um hvað hæstv. iðnrh. hefur þar lagt til og hverjar tillögur eru í sambandi við þessa flutningsjöfnun. Ég hef t.d. verið á fundi norður á Akureyri þar sem mikil og góð bók frá Háskólanum í Reykjavík var lögð fram um flutningskostnað og byggðamál, mikil og góð bók með fullt af góðum tillögum sem því miður hefur ekki verið farið mikið eftir. Þar var t.d. fjallað um það að jöfnun yrði ekki í sjávarútvegi. Það ætti með öðrum orðum ekki að jafna flutningskostnað þeirra aðila sem t.d. búa á norðausturhorni landsins og þurfa að kaupa fisk á mörkuðum. Það getur kostað 15--20 kr., jafnvel meira, að flytja hvert kíló af fiski á þetta svæði til vinnslu og jafnmikið ef ekki meira að flytja afurðina suður til Reykjavíkur eða nærliggjandi útflutningshafna til útflutnings. Á mörgum svæðum landsbyggðarinnar þar sem útgerð hefur minnkað, jafnvel lagst af, þurfa menn að reiða sig á það að kaupa fisk á markaði og þá eru ofboðslegir flutningar, og sá flutningskostnaður sem af þeim hlýst verulega mikill sem skekkir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja til að taka þátt. Þetta virkar líka á allar nauðsynjavörur fólks sem verið er að flytja. Vafalaust á þessi flutningsjöfnun, vonandi, að koma inn í það.

Ég vildi segja, virðulegi forseti, að ég hef ákveðnar efasemdir um þá aðferð sem hæstv. iðnrh. er að viðra með þessum hugmyndum um flutningsjöfnunina, ekki samt vegna þess að ég sé á móti því að greiða þetta niður á einn eða annan hátt. Ég hef alltaf stoppað við og spurt, og vil gera það enn einu sinni, hæstv. iðnrh.: Kom aldrei til tals í iðnrn. eða hjá hæstv. ríkisstjórn að beita sér fyrir lækkun flutningskostnaðar með því að lækka skattheimtu hins opinbera af flutningastarfsemi? Það hefur komið fram, virðulegi forseti, að allt að helmingur af tekjum flutningabíls sem nú er að keyra norður í land eða eitthvað frá Reykjavík rennur á einn eða annan hátt í alls konar sköttum aftur til ríkisins. Ef flutningabíll keyrir norður með vörur sem kostar 100 þús. kr. að flytja norður fær ríkissjóður um 50 þús. kr. af því til baka í olíugjaldi, þungaskatti, gúmmígjaldi og hvað allar þessar skattheimtur nú heita.

Svo ætlar ríkisstjórnin að halda áfram, eins og við vorum að ræða örlítið áðan, með allt að því heimskulegri hugmynd um aukagjald á flutningabíla ef svokallað olíugjald verður tekið upp, 10% aukagjald á flutningabíla. Með öðrum orðum á að halda mælagjaldinu áfram, ég tala nú ekki um þá aðgerð ríkisstjórnar að hækka olíugjald um áramótin um einar 400 millj. Sá kostnaður fór auðvitað þráðbeint út í verðlagið.

Virðulegi forseti. Um það frv. sem hæstv. iðnrh. hefur lagt fram um að afleggja annan þáttinn sem er um jöfnun flutningskostnaðar, þ.e. af sementi, og olíugjaldið stendur þá vafalaust eftir --- ég bíð eftir því að fá að heyra hæstv. iðnrh. lýsa því yfir á Alþingi að ekki standi til að afleggja jöfnun á flutningskostnaði á olíu --- hef ég ákveðinn fyrirvara. Ef það reynist rétt að menn noti ekki hagkvæmar leiðir til að flytja sement er það auðvitað mjög bagalegt og þá er það spurning um leið hvort hugmyndir hæstv. iðnrh. um jöfnunarsjóð á flutningum sem ég gerði að umtalsefni áðan fela ekki í sér sömu annmarka á þeim flutningsjöfnunarsjóði eins og flutningsjöfnunarsjóði sements. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan munu menn ekki leita hagkvæmustu leiða til að flytja vöru til og frá vegna þessa atriðis. Ef satt er er það auðvitað mjög alvarlegt mál.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra lagði til að þessu máli yrði vísað til hv. efh.- og viðskn. og er það auðvitað alveg eðlilegt. Ég vil hér og nú óska eftir því að það verði skoðað. Sú ósk kemur fram formlega úr ræðustól Alþingis að hv. iðnn. fái þetta frv. líka til meðferðar og umsagnar frá hv. efh.- og viðskn. Þó að þetta sé skattamál og eigi þá heima hjá efh.- og viðskn. er þetta líka byggðamál og þau heyra undir iðnn. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að iðnn. fái að fjalla um þetta frv. líka, kosti þess og galla við að leggja þetta niður. Ég vil að við förum í gegnum þetta og vil enda mál mitt með því að spyrja hæstv. iðnrh. hvort hún vilji beita sér fyrir því að hv. iðnn., nefnd byggðamála á Alþingi, fái líka að fjalla um þetta frv. og gefa umsögn um það.