Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 18:23:19 (5010)

2004-03-08 18:23:19# 130. lþ. 78.11 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Frú forseti. Það er með ólíkindum hvernig hv. þm. Kristján L. Möller fer um þau mál er varða flutningskostnað út á landsbyggðina. Hann hefur í vetur og undangengin þing talað mikið um að stjórnvöld hafi sí og æ hækkað skatta og skyldur hvað varðar flutningskostnað.

Ég hef áður greint frá því úr ræðustól að núv. ríkisstjórn hefur gert ýmislegt til að lækka flutningsgjöld út á land. Vegur þá langmest að tollar sem voru 30% á flutningatækjum eru nú komnir í 0 sem skiptir verulega miklu máli.

Virðisaukaskatturinn er auðvitað upp tekinn og situr þá ekki eftir inni í flutningafyrirtækjunum eins og hann gerði áður fyrr þannig að þarna munar frá því sem áður var um helming á innkaupum á þessum flutningatækjum frá því sem áður var.

Svo má ekki gleyma því að vegirnir okkar hafa styrkst og batnað þannig að nú er heimilt að vera með miklu þyngri æki á vegunum en áður var og það er klárlega sparnaður í þessu flutningskerfi. Þannig geta menn nú verið með 44 tonn af æki, og allt upp í 49 tonn ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði. Þannig er einmitt sementið flutt í þessum stærstu flutningaækjum. Þetta er hreinn sparnaður og hefur orðið til lækkunar á flutningskostnaði. Þetta er líklega í annað skipti sem ég nefni þetta af því að það er óþolandi að menn skuli í síbylju vera að tala um hækkanir á sköttum þegar þeir hafa lækkað og orðið til þess að flutningskostnaður út á landsbyggðina hefur lækkað.