Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 14:18:03 (5016)

2004-03-09 14:18:03# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, Frsm. SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. flutti hér ágæta tölu. Hann talaði m.a. um að Íslendingar hefðu styrkt sjálfstæðisbaráttu þessara nýju ríkja og að við hefðum staðið með þeim í frelsisbaráttunni og það er auðvitað rétt. Hann lagði áherslu á að aðild þeirra að Evrópusambandinu og NATO væri þeim ákaflega mikilvæg í þessu sambandi.

Af þessu tilefni langar mig til að rifja upp, ekki síst vegna þess að ég held að bæði sú sem hér stendur og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson séum mjög áfram um veru okkar Íslendinga í NATO, nýlega yfirlýsingu frá varaformanni Samf., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þar sem hún lýsti því yfir að við Íslendingar ættum fremur að halla okkur að Evrópusambandinu í varnar- og öryggismálum í stað Bandaríkjanna og hervaldastefnu þeirra, ef ég man rétt var það orðað einhvern veginn á þann veg.

Nýlega kom hér sérfræðingur, hægri hönd Solana, sem fer með varnar- og öryggismál í Evrópusambandinu, sem lýsti því yfir að Evrópusambandið gæti alls ekki tryggt varnir Íslands, gæti ekki einu sinni tryggt varnir einstakra ríkja innan Evrópusambandsins.

Því vil ég beina þeirri spurningu til hv. þm.: Er hann sammála þessari yfirlýsingu varaformanns Samf.?