Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:10:36 (5026)

2004-03-09 15:10:36# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að leyfa mér að halda því fram að það sé ekki sérstaklega minn vandi þó hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir skilji ekki stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í Evrópumálunum. Ég vona að hv. þm. skilji stefnu eigin flokks. Sjálf skiljum við okkar stefnu og það er aðalatriðið. Auðvitað væri æskilegt að þetta væri líka gagnkvæmt, að við skildum alveg stefnu hvors annars. En það er þó ekki nálægt því jafnmikilvægt og að vita fyrir hvað menn standa sjálfir og það vona ég að sé í lagi í þessu tilviki. (GÁS: Erfitt að útskýra.)

Hv. þm. fór ekki alveg hárrétt með úr máli mínu varðandi tvíhliða samning, þ.e. það sem stendur í þessum texta. Hann talar alveg skýrt fyrir sig. Við segjum að eftir því sem til breytinga kemur eða þarf að koma á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þá teljum við að af Íslands hálfu þjóni hagsmunum okkar best að þróa þau samskipti í þessa átt, þ.e. frá hinu flókna stofnanakerfi og meira í áttina að tvíhliða samningum sem gætu eftir atvikum verið á mismunandi sviðum um viðskipti og samvinnu eins og þetta að hluta til var má segja. Undir liggur það, og það skiptir máli í sambandi við vangaveltur um Noreg, að við gefum okkur það, og ég geri það, að viðskiptakjörin verði ekki færð til baka og samskiptakjörin almennt. Hvers vegna ætti þess að þurfa? Telja menn að Evrópusambandið muni beita Ísland þvílíku harðræði að það muni ætla að knýja hlutina aftur á bak í samskiptum þessara aðila ef til breytinga þarf að koma að þessu leyti, t.d. vegna þess að Noregur kýs að ganga í Evrópusambandið. Mín afstaða gagnvart því máli er sú að það er algerlega sjálfstætt mál eftir sem áður hvort Ísland eigi að fara þangað inn eða ekki. Það eigum við að meta óháð því sem Norðmenn gera. Þó að þeir kunni að lenda þarna inn, sem ég reyndar tel litlar líkur á að verði á allra næstu árum, þá eigum við Íslendingar eftir sem áður að meta sjálfstætt hvað þjónar hagsmunum okkar best (Forseti hringir.) og þá er mjög mikilvægt að vita í hvaða átt menn kysu að þessi samskipti þróuðust.