Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:41:22 (5032)

2004-03-09 15:41:22# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, AtlG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:41]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Í niðurlagi nál. um frv. sem hér er til umfjöllunar kemur fram að samkvæmt upplýsingum frá félmrn. og dómsmrn. þurfi að gera breytingar, m.a. á lögum nr. 96/2002, um útlendinga, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, fyrir 1. maí næstkomandi til að takmarka megi frjálsa för fólks frá nýju aðildarríkjunum. Nefndin leggur áherslu á að vinnu við þau frumvörp verði hraðað þannig að nauðsynlegar lagabreytingar hafi tekið gildi á undan stækkunarsamningnum.

Hv. formaður utanrmn. hefur sagt að útlendingar gegni veigamiklu hlutverki í íslensku atvinnulífi sem hefði ríka þörf fyrir starfskrafta þeirra. Þeir gegna að mjög mörgu leyti lykilhlutverki, í fiskvinnslu, á sjúkrahúsum og á ýmsum þjónustustofnunum. Við þetta vil ég bæta að útlendingar hafa auðgað menningarlíf þjóðarinnar og skapað fjölbreytni sem öllum þjóðum er nauðsynleg. En þrátt fyrir að útlendingar skipti miklu máli fyrir efnahag og menningu þjóðarinnar eru þeir ekki virtir að verðleikum í íslenskri löggjöf. Það má jafnvel halda því fram að þeim sé tekið sem óvelkomnum gestum og að að hluta til búin dvalarskilyrði á Íslandi sem standast vart mannréttindi.

Í tengslum við frv. sem hér er til umræðu vil ég vekja athygli á tveimur frumvörpum sem tengjast útlendingum og atvinnuréttindum þeirra sem lögð voru fram á Alþingi í dag og dreift á borð þingmanna. Þau varða mannréttindi þessara útlendinga, þ.e. réttarstöðu niðja útlendinga, ungmennin. Þau varða réttarstöðu erlendra kvenna sem giftast íslenskum ríkisborgurum og sæta gjarnan frekar ofbeldi í sambúð sinni en íslenskar konur. Einnig varða þau réttarstöðu útlendinga sem hér eru með tímabundin atvinnuleyfi, sem ég vil kalla vistarband, ástand sem við þekktum á fyrri öldum í sambandi húsbænda og hjúa.

Ég tel rétt og eðlilegt að efni þessara tveggja frumvarpa sem ég geri að umtalsefni verði tekið til skoðunar í tengslum við þær breytingar sem gera þarf á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga samkvæmt nál. um frv. sem hér er til umræðu.

Ég vek athygli á því að í þeim tveimur frumvörpum sem dreift var til þingmanna í dag eru þessi tilmæli sett fram. Ég endurtek þau í ræðustól Alþingis og beini þeim til hæstv. utanrmn. og annarra nefnda Alþingis sem kunna að fá frumvörp að því er varðar breytingu á lögum um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga til umfjöllunar. Ég er að tala um lágmarksmannréttindi þeirra útlendinga sem starfa hér á landi, aðstandenda og niðja þeirra sem þeim fylgja.