Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:17:42 (5037)

2004-03-09 16:17:42# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það sem mér finnst skipta langmestu máli í þessari umræðu er ekki hversu mikið eða hversu oft hv. þingmaður eða aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafa skipt um skoðun og ekki hvort þeir eru orðnir Evrópusinnaðri eða komnir í hjónasæng með einhverjum norrænum Evrópusinnum. Það sem mér finnst skipta máli er að það hefur runnið upp fyrir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og þá vonandi öllum öðrum þingmönnum VG líka, að EES færði okkur gríðarmikinn efnahagslegan ávinning. Um þetta ekki síst stóð deilan hér 1992 og 1993. Þá var hv. þm. allt annarrar skoðunar.

Það blasir við öllum sem líta núna yfir slóð þessa máls og afleiðingar að sú efnahagslega velsæld sem við Íslendingar höfum búið við undanfarin ár á að verulegu leyti rætur að rekja til þess að við höfðum vit fyrir þeim sem voru á móti EES á sínum tíma. EES er ein af undirstöðunum fyrir því góðæri sem hér hefur ríkt töluvert lengi, og það skiptir ákaflega miklu máli að heyra það úr munni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hann gerir sér grein fyrir þessu. Hv. þm. Mörður Árnason benti honum síðan á að það væri ekki bara hægt að pikka og velja það besta. Til þess að njóta gæða hins innri markaðar verða menn líka að hafa leikreglur og einhvers konar eftirlitsstofnanir. Það stendur enn þá upp á VG í þessari umræðu að skýra hvernig þeir vilja þá hafa þetta eftirlit með höndum ef þeir vilja ná fram kostum innri markaðarins.

Til þess þurfum við þessar stofnanir og það þýðir að við höfum þurft að láta ákveðið fullveldi af höndum. Nú er staðan þannig í dag að ég er þeirrar skoðunar að það væri miklu betra fyrir okkur að stíga skrefið til fulls og ganga í Evrópusambandið.