Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:26:06 (5041)

2004-03-09 16:26:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvelt að svara þessu. Ég hef ekki áhyggjur af því. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að það eru ákveðnir byrjunarörðugleikar og ég er sammála hv. þingmanni um að fiskveiðistjórnarkerfi ESB er ekki til fyrirmyndar. Það er slæmt. En það er betra í dag en það var fyrir fimm árum og er miklu betra en það var fyrir tíu árum. Hvers vegna? Vegna þess að ESB horfir að ýmsu leyti til þjóða eins og Íslendinga og reyndar Norðmanna og er að breyta stjórnkerfi sínu. Fiskvernd er miklu betri núna innan ESB en hún var. Hún er ekki heldur nógu góð hjá okkur. Bæði við og ESB gætum gert betur í þessu.

En það hefur líka orðin ein meginbreyting hjá Evrópusambandinu varðandi stjórn fiskveiða á síðustu árum sem kann að hafa farið fram hjá hv. formanni utanrmn. Hún felst í því að byggðir með aðgang að sjó, strandsvæði, hafa meiri rétt til að stýra veiðibrögðum, veiðiaðferðum, en áður. Það skiptir máli.

Ef svo færi í þeirri framtíð sem hv. þm. var að lýsa upp, að Samf. ætti kost á því að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, yrði það ekki gert nema á grundvelli samningsmarkmiða. Eitt þeirra væri að það besta úr stjórnkerfi íslenskra fiskveiða yrði tekið upp af hálfu ESB. Telja menn að það yrði erfitt? Nei, það telja menn ekki. Það liggja fyrir yfirlýsingar ýmissa mikilhæfra stjórnmálamanna í Evrópusambandinu um að íslenska kerfið sé að mörgu leyti sú fyrirmynd sem menn ættu að taka upp. Nú veit ég að margir íslenskir stjórnmálamenn og sjómenn eru andvígir þessu. Svona er það samt.

Að því er varðar síðan það sem hv. þm. sagði, að ákvörðunin mundi færast til Brussel, vísa ég aftur til Berlínarræðu hæstv. utanrrh. Þar er lausnina að finna.