Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 16:40:46 (5047)

2004-03-09 16:40:46# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[16:40]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur studdi á sínum tíma þá stefnu Íslands að gerast aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, að tengjast þeim viðskiptasamböndum og reglum sem við urðum að undirgangast. Menn höfðu þá ýmsar efasemdir sem tengdust m.a. sjávarútvegsmálum og samningum okkar að því leyti, eins varðandi tollamál og ýmislegt sem fylgdi samningunum.

Einkum man ég eftir skiptum skoðunum um það hvort Íslendingar ættu að láta Evrópusambandinu í té nokkur þúsund tonn í aflaheimildum, 3 þús. tonn af karfa og fá í staðinn betri aðlögunarsamninga fyrir sjávarafurðir okkar. Þetta var gert og síðan endurskoðað 1995 vegna kröfu ESB-ríkjanna um aðgang að veiðisvæðunum við Ísland vegna þess hversu lítið Evrópuríkin gátu veitt af þeim heimildum sem þau höfðu sóst eftir. Sá samningur var lagfærður og hefur síðan verið í gildi. Smám saman hafa Evrópusambandsríkin nýtt sér meira af þeim heimildum sem þau fengu með þeim samningi en við höfum hins vegar notið viðskiptakjaranna og margs annars sem fylgdi þessum samningi.

Hér er um það að ræða að EES-samningurinn taki einnig til nýrra ríkja sem fá innan skamms aðild að Evrópusambandinu. Málið snýst um að Ísland ásamt öðrum EES-ríkjum og EFTA-ríkjum samþykki að þau tíu ríki sem upp eru talin í frumvarpinu verði samningsaðilar að EES-samningnum.

Ég er hlynntur þessu máli. Frjálsl. hefur tekið afstöðu til þess og telur ekki tímabært, eins og reyndar flestir hafa talið í umræðum í dag, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hér hafa verið skoðanaskipti um það í dag. Við í Frjálsl. höfum ekki talið tímabært að sækja um aðild að Evrópusambandinu og höfum talið að EES-samningurinn byði upp á þá stöðu sem við viljum hafa.

Að sjálfsögðu höfum við tekið undir að reyna beri að lagfæra þau kjör sem að okkur snúa í því sambandi. Mér sýnist, virðulegur forseti, sumt af því hafa tekist í þessum samningi sem hér er um að ræða, m.a. í samningum um sölu á svokölluðum fiðrildaflökum eða síldarsamflökum til nýju ríkjanna. Það er vel því að þar er um að ræða háar upphæðir sem við hefðum ella þurft að greiða í tolla, sennilega upp á 80--90%. Því ber að fagna að tekist hafi að gera viðskiptasamninga að þessu leyti.

Almennt erum við hlynnt því að horfa til þess að ný ríki sem ganga í Evrópusambandið verði jafnframt aðilar að EES-samningnum. Við teljum að sú þróun sem á sér stað í Evrópu að þessu leyti sé til bóta.

[16:45]

Mig langar að ræða eitt atriði sérstaklega og það er hin frjálsa för launafólks sem gert er ráð fyrir í samningnum, en samkvæmt tillögunni sem við ræðum er sett takmörkun á frjálsri för launafólks til landsins og lagt til að við tökum upp aðlögun til tveggja ára. Ég tel ekki óeðlilegt af hálfu Íslands að hafa slíkan fyrirvara með tilliti til þess að önnur ríki hafa hann einnig. Við þurfum örugglega að búa til aðlögun að algjörlega frjálsri för launafólks milli landa. Þó verð ég að segja að niðurstaðan af EES-samningnum á sínum tíma leiddi ekki til þess flóðs af launafólki til Íslands sem margir höfðu búist við. Sá sem hér stóð hafði m.a. nokkrar efasemdir um það á þeim tíma hvort við værum ekki að taka einhverja áhættu sem við eigi réðum við. Ég tel að reynslan hafi sýnt að sá ótti var ástæðulaus.

Hins vegar á ekki alveg það sama við varðandi þau tíu ríki sem verið er að ræða um. Við getum t.d. tekið Pólland, sem hefur verið nefnt í ræðum manna, þar sem atvinnuleysi hefur lengi verið á bilinu 15--20%. Ef ég man rétt er pólska þjóðin um 45 milljónir þannig að við sjáum að atvinnulausir eru á bilinu 7--9 milljónir. Ef mikill fjöldi færi að leita sér að atvinnu samkvæmt opinni heimild gæti auðvitað orðið flóð. Við megum heldur ekki gleyma því að fjöldamargir Pólverjar eru búsettir hér á landi og hafa stundað hér vinnu á undanförnum árum og eru orðnir íslenskir ríkisborgarar. Það er því ekki eins og þessi þróun hafi eitthvað staðið í stað á undanförnum árum.

Hins vegar, virðulegur forseti, tel ég að það þurfi að skoða þá samninga sem til eru um atvinnuréttindi útlendinga og hvernig réttur atvinnurekenda er í því sambandi. Mér finnst dálítið skorta á réttindi fólksins að þessu leyti og tel að það þurfi að skoða réttarstöðu þess fólks sem hingað kemur, atvinnuréttindi útlendinganna og hvernig atvinnuleyfin eru gefin út. Þess vegna tek ég undir það sem segir í nál., með leyfi hæstv. forseta:

,,Þá bendir nefndin á að mikilvægt virðist að taka til athugunar framkvæmd laga nr. 54/2001, um réttarstöðu starfsmanna sem starfa tímabundið á Íslandi á vegum erlendra fyrirtækja.``

Ég held að full ástæða sé til að skoða það og fara gaumgæfilega yfir hvernig þeim málum er háttað.

Í Eystrasaltslöndunum eru mjög lág kjör miðað við það sem gerist hér á landi. Ef ég veit rétt eru þau þó nokkuð lægri í sumum Eystrasaltslöndunum en kaupgjaldið í Póllandi. Það er því vissulega eftir miklu að slægjast hjá fólki ef það getur komið hingað og fengið vinnu. Ísland er lítið land þannig að ég tel ekki óeðlilegt að við höfum þennan tveggja ára fyrirvara og skoðum hvernig þessum málum verði best fyrirkomið, svo vel fari, en tek almennt undir að ég tel að við eigum af fremsta megni að leitast við að veita fólki þann rétt að það geti farið á milli landa og leitað sér atvinnu.

En á meðan aðrar þjóðir Evrópusambandsins gera fyrirvara að þessu leyti er auðvitað hætta á því að þau lönd sem ekki gerðu fyrirvara þyrftu að taka við flóðinu, ef það verður. Þess vegna tel ég eðlilegt að Ísland hafi þennan fyrirvara þar sem flest önnur ríki hafa hann, vegna þess að ástandið er náttúrlega erfiðara ef tiltölulega fá lönd eru opin að þessu leyti. Ísland er ekki stór vinnumarkaður þó við höfum vissulega notið hér starfa margra útlendinga á undanförnum árum og fólks sem hefur sest hér að og er orðið íslenskir ríkisborgarar. Ég tel að það hafi að mörgu leyti auðgað þjóðfélag okkar og erlendir ríkisborgarar sem hér hafa sest að hafa á mörgum sviðum fært okkur nýja víðsýni og jafnvel breytt atvinnutækifæri og nýrri, sem við hefðum ekki notið annars.

Varðandi það hvort það kunni að koma upp síðar að Ísland þurfi að sækja um aðild að Evrópusambandinu, kann það auðvitað að vera, þó við sjáum ekki neina ástæðu til þess nú í mínum flokki. En staða okkar breytist verulega ef sjávarútvegsþjóð eins og Norðmenn sækir um aðild að Evrópusambandinu og við værum þá með öðruvísi samkeppnismöguleika en þeim stæði e.t.v. til boða með sjávarafurðir sínar.

Komi sú staða upp verðum við auðvitað að ræða hana eins og allar breytingar sem verða á samskiptum þjóða í nágrenni okkar og þeirra þjóða sem við höfum haft mest samskipti við, bæði menningarleg og á viðskiptasviði. Það fer því auðvitað ekkert á milli mála að verði slík breyting þurfa íslensk stjórnvöld á hverjum tíma og Íslendingar að endurmeta stöðu sína að þessu leyti.

Hér fór fram örlítil umræða, hæstv. forseti, um fiskveiðistefnu Evrópusambandsins og að hún hefði verið að batna o.s.frv. og ríki innan Evrópusambandsins væru jafnvel á þeirri skoðun að taka sér íslenska fiskveiðistjórn til fyrirmyndar. Ég held, virðulegi forseti, að margar þjóðir innan Evrópusambandsins séu farnar að horfa með meiri áhuga til fiskveiðistjórnarkerfis Færeyja en Íslands, því Færeyjar er eina ríkið í Norður-Atlantshafinu sem stýrir fiskveiðum sínum þannig að þar er ekki þetta vandamál við brottkast. Síðast var upplýst í einhverjum þætti eða fréttum í Danmörku að talið væri að brottkast þar væri um 36 þús. tonn, ef ég man rétt og við höfum heyrt brottkastsumræðuna í Noregi og þekkjum brottkastsumræðuna á Íslandi.

Því miður er brottkast á afla talsverður fylgifiskur kvótakerfa og við þurfum ekkert að hafa um það neinar stórar deilur. Það er bara einfaldlega svoleiðis og á því þarf að taka ef menn vilja lagfæra stöðuna hér á landi og hefur svo sem verið gert svolítið í því á undanförnum árum, eins og Hafró-aflinn o.s.frv.

Ég held að það sé mikill misskilningur sem fram kom í umræðunni í dag að besta fiskveiðistjórnarkerfi í heimi sé á Íslandi. Ég er alveg sannfærður um að það er miklu betra botnfisksstjórnarkerfi í Færeyjum. Færeyingar nota hins vegar kvótaskiptingu varðandi uppsjávarveiðar og ég tel að það væri einnig hægt að nota stjórn veiða á uppsjávarveiðum með kvótaskiptingu hér á landi ef menn vildu viðhalda því. En það er ákaflega vandmeðfarið að stýra blönduðum botnfisksveiðum í veiðikerfi sem er samansett af kvótum.

Við erum auðvitað alltaf að læra hér á okkar blessaða landi varðandi lífríki okkar. Hér er veðurfar að hlýna. Sjávarhitinn er að hækka. Fisktegundir ganga öðruvísi við landið síðustu ár en undanfarin ár. Allt er því þetta breytingum háð og passar ákaflega illa inn í niðurneglt tegundakvótakerfið. Það er því að fjöldamörgu að hyggja.

Ég vildi bara láta þetta koma fram vegna umræðunnar sem fram fór í dag milli manna og vildi ekki láta því ómótmælt að íslenska kvótakerfið væri það besta í heimi að þessu leyti og að þangað væru öll ríki veraldar að horfa að því er framkvæmd þess snýr.

Ég hef sem sagt lýst þeirri skoðun að við í Frjálsl. erum hlynnt því frv. sem hér er lagt til og erum hlynnt því almennt að reyna að viðhalda EES-samningnum og ná aðlögun á honum ef um það er að ræða, en teljum að eins og málin standa í dag sé ekki ástæða fyrir íslenska þjóð að setja stefnuna beint inn í Evrópusambandið.