Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:25:06 (5051)

2004-03-09 17:25:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. þingmanni hefur á vettvangi Framsfl. verið mikið unnið að þessu máli. Það er alveg rétt hjá honum að við teljum að tvíhliða samningur komi ekki til álita. Ég hef ekki heyrt nein rök sem mæla með slíku. Hins vegar höfum við margoft tekið það fram að því er varðar framtíðarhagsmuni Íslands að þar séu tveir kostir, annaðhvort að byggja á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til langrar framtíðar eða að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Við höfum verið að leggja mat okkar á framtíðarstöðu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Það höfum við verið að gera á undanförnum mánuðum og árum. Þeirri vinnu er ekki lokið en það liggur fyrir hjá Framsfl. eins og öðrum flokkum í þessu landi að taka endanlega afstöðu til þess hvort eigi að byggja á þeim samningi til lengri frambúðar eða sækja um aðild. Á flokksþingi okkar höfum við ekki tekið slíka afstöðu en það er alveg ljóst að einungis flokksþing Framsfl. getur tekið slíka ákvörðun. Hún er viðamikil og ég get að sjálfsögðu ekki sagt fyrir um það hver verður niðurstaða flokksins í framtíðinni að því er varðar þetta mál. Það liggur alveg ljóst fyrir að það verður þar til umfjöllunar.