Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:26:46 (5052)

2004-03-09 17:26:46# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. hefur í reynd í þessari umræðu slegið þann kost út af borðinu sem felst í því að ná fram endurskoðun á EES-samningnum sem Íslendingar gætu sætt sig við. Þá er bara einn kostur eftir. Hann er að sækja um aðild að Evrópusambandinu í fullri alvöru. Þeir tveir framsóknarmenn sem hér hafa talað í dag hafa verið sammála um þetta. Hæstv. utanrrh. segir: Þetta er viðamikil ákvörðun og það er ekki hægt að taka hana af einum manni eða nokkrum forustumönnum, flokksþing hlýtur að fjalla um það. Af sjálfu leiðir.

Hæstv. utanrrh. sagði jafnframt að það væri alveg ljóst að um þetta mál yrði fjallað á flokksþingi Framsfl. Hæstv. utanrrh. skiptir um ham þegar líður að lokum þessa árs. Ef allir draumar hans og flokksins ganga í fyllingu verður hann ekki hæstv. utanrrh., heldur hæstv. forsrh. Þá ber honum að hafa forustu, að því er ríkisstjórnina varðar, um allt það sem til mestra bóta horfir um hag landsins.

Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh.: Mun hann þegar hann verður orðinn forsætisráðherra loksins taka af skarið í þessum efnum og skoða til þrautar hvort það eigi í fullri alvöru að sækja um aðild að Evrópusambandinu? Eða ætlar Framsfl. að halda þessum feluleik áfram?