Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:30:06 (5054)

2004-03-09 17:30:06# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. utanrrh. um að það er ákaflega þýðingarmikið að við getum rætt Evrópumálin og áttað okkur á stöðu þeirra. Dagurinn í dag er því mjög dýrmætur í þeim skilningi að við höfum átt þess kost að skiptast á skoðunum um þau mál.

Ég fagna einnig því frumkvæði hæstv. forsrh. að óska eftir tilnefningum þingflokkanna í sérstaka nefnd til að fara yfir Evrópustefnumálin til að menn geti áttað sig aðeins betur á þeim málum.

Vandinn finnst mér hins vegar m.a. felast í því sem ég kom að í ræðu minni áðan, þ.e. að stefna Evrópusambandsins er að verða æ mótsagnakenndari. Hún byggir á nokkrum meginþáttum og nú blasir við að í veigamiklum atriðum er Evrópusambandið farið að vinna gegn eigin hugmyndafræði.

Ég nefndi áðan það sem blasir við, varðandi hina frjálsu för launafólks, þar sem Evrópusambandsríkin reyna öll að girða vinnumarkað sinn af og gera það mjög meðvitað.

Í öðru lagi blasir við að stóru ríkin, bæði Frakkland og Þýskaland, reyna að koma sér undan þeim skilmálum sem fylgja hinu evrópska myntsvæði og reyna að komast undan því að breyta efnahagsstefnu sinni eins og myntsvæðið kveður á um.

Síðast en ekki síst gætir tilhneigingar til einangrunarhyggju innan Evrópusambandsins. Dæmið sem hæstv. utanrrh. nefndi áðan, varðandi rannsókn á innflutningi á laxi, er auðvitað mjög gott dæmi um það þegar Evrópusambandið reynir að verja eigin atvinnuveg með því að torvelda t.d. innflutning á laxi, hvort sem það er frá okkur eða öðrum samkeppnisaðilum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta dæmi, sem hæstv. ráðherra nefndi og var afar athyglisvert, sé dæmi um vaxandi einangrunarhyggju sem sífellt er að skjóta upp kollinum innan Evrópusambandsins og virðist stöðugt purkunarlausari eftir því sem árin líða.