Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:34:29 (5056)

2004-03-09 17:34:29# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt um þetta mál en það er auðvitað mikið vandamál sem snýr að þeim löndum sem standa utan Evrópusambandsins, að stefna Evrópusambandsins skuli vera svona mótsagnakennd.

Aðalatriði málsins finnst mér að Evrópusambandið hefur markað stefnu sína í þá veru að opna sinn innri markað. Aðilar að innri markaðnum eru Evrópusambandsríkin og þau EFTA-ríki sem gerðu þennan samning við Evrópusambandið. Þetta eru ekkert annað en tilburðir í þá átt að reyna að verja atvinnuvegi sína þegar Evrópusambandið síðan kýs að búa til nýjar girðingar undir fölsku yfirskyni til þess að koma í veg fyrir eðlilega samkeppni innan hins Evrópska efnahagssvæðis.

Þessu reyndi ég að koma til skila í máli mínu áðan. Ég var að benda á þær miklu mótsagnir sem mér virðast koma æ skýrar fram innan Evrópusambandsins, að menn treysti sér einfaldlega ekki til þess að fylgja eigin stefnu og hugmyndafræði eftir. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir okkur sem trúum á hugmyndafræði hinna frjálsu viðskipta milli þjóða. Þetta er að mínu mati mikið áfall fyrir Evrópuhugsjónina sjálfa og gerir það að verkum að það hlýtur að vera miklu flóknara fyrir okkur að velta fyrir okkur málum varðandi Evrópusambandið þegar Evrópusambandið sjálft er komið í bullandi mótsögn við sjálft sig.