Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:37:53 (5058)

2004-03-09 17:37:53# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja mjög þessa umræðu. Umræðan sem farið hefur fram í dag um EES-samninginn hefur verið mjög góð, um stækkunina á Evrópusambandinu, um EES-samninginn og allt þetta ferli. Það er ljóst að hyggja þarf að mörgu í sambandi við þessa stækkun. Það þarf líka að ná fram ýmsum lagabreytingum fyrir 1. maí næstkomandi þegar stækkunin tekur gildi.

Ég vildi fá að rifja upp, með leyfi virðulegs forseta, það sem ég sagði í framsögu minni áðan um nál. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur reynst Íslandi vel í meginatriðum og opnað aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. EES-samningurinn er einn mikilvægasti samningur Íslands á viðskiptasviðinu en við höfum þurft að hafa töluvert fyrir því að koma honum á og viðhalda honum. Hæstv. utanrrh. nefndi jafnframt ýmis atriði áðan sem ljóst er að við þurfum að hafa áhyggjur af.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir að vera viðstaddur og taka þátt í þessum umræðum og nefndarmönnum í utanrmn. fyrir ákaflega vel unnin störf. Ég tel að það væri gott fyrir hið háa Alþingi ef við gætum tekið fleiri daga í málefnalega umræðu um málefni sem skipta okkur Íslendinga svo miklu máli.