Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:08:22 (5064)

2004-03-09 18:08:22# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég skil ágætlega að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé á móti því að selja Símann og þar með á móti því að verja ætluðum fjármunum af þeirri sölu til nokkurs hlutar. Mér finnst að hann eigi hins vegar ekki að láta það mál, sem ég ætla ekki að ræða við hann hér, skyggja á þá aðferð að átak eins og nýbygging Landspítalans sé fjármagnað með sérstökum hætti. Það hefur að vísu gefist misvel hjá okkur að fjármagna ýmsa hluti, því miður, á þessu landi sem lengi hefur verið fátækt og búið við of litla velsæld en við höfum þó gert það með ýmsum hætti. Við gerðum það með Þjóðarbókhlöðuna, við gerðum það með hringveginn og fleira mætti nefna. Það er ekki óeðlileg aðferð í ríkisbúskapnum, alveg eins og í búskap fjölskyldunnar, að þegar menn ráðast í sérstök verkefni þá séu þau fjármögnuð á sérstakan hátt þannig að hið venjulega efnahagslíf, hvort sem það er efnahagslíf það sem ríkið býr við eða það sem fjölskyldan býr við, þurfi sem minnst að hreyfast af þeim sökum.

Mig langar að spyrja hv. þm. að því hvort hann sé í grundvallaratriðum á móti slíkri fjármögnun í sérstöku átaki til að koma upp fasteignum til að auka samgöngur á tilteknum landsvæðum eða með öðrum hætti að koma sér upp jákvæðum hlutum sem hægt er að taka út úr hinum venjulega ríkisrekstri sem hinar venjulegu skattgreiðslur borga.