Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:17:21 (5068)

2004-03-09 18:17:21# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Mig langar til að stinga inn orði í þessa umræðu þó að liðið sé nokkuð á hana. Ég tel það þarft verk að flytja þessa þáltill. og hreyfa málinu eins og flutningsmenn gera. Þó svo að ég taki ekki undir allt sem í tillögunni kemur fram er engu að síður nauðsynlegt að brydda upp á þessu máli og ræða það frá öllum hliðum.

Ég vil fyrst segja að það sem ég sakna í tillögunni og finnst sárlega vanta er að fyrst þarf að ákveða hvað spítalinn á að gera, að áður en menn ákveði hvers konar húsnæði eða aðstöðu spítalinn þarf þurfi menn fyrst að ákveða hvað hann á að gera. Ég er ekki alveg sannfærður um að spítalinn eigi að gera allt það sem hann er að gera í dag. Ég hef efasemdir um það og tel fyllstu ástæðu til að fara í gegnum hlutverk spítalans með það fyrir augum að greina í sundur þá starfsemi sem þar fer fram núna og velta því fyrir sér hvað af henni væri eðlilegt að færa undan spítalanum og hafa með öðrum hætti, hvort sem það yrði sjálfstæð starfsemi eða fært undir aðra starfsemi. Að störfum er nefnd sem er einmitt að fjalla um þetta hlutverk og ég vil fá niðurstöðu úr þeirri nefnd áður en ég afgreiði þessa tillögu. Ég veit að í henni eiga sæti fulltrúar stjórnmálaflokkanna, m.a. Samf., þannig að ég mælist til þess að framgangurinn verði með þeim hætti að fyrst komi niðurstaða í hlutverkið og síðan setjist menn yfir það sem tillagan fjallar um.

Ég vil svo sem ekki segja margt um hugsanlegar breytingar á hlutverki spítalans, ég vil spara mér skoðanaskipti um það á þessu stigi málsins, en ég hygg að það megi þó segja að við ætlum þessum spítala að taka við tilvikum og öðru sem aðrir spítalar ráða ekki við og það sé að sumu leyti ekki nauðsynlegt að spítalinn sé í dag að fást við verkefni sem aðrir eru að fást við, bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar.

Það eru einkum þrjú atriði sem eru í þessari tillögu. Í fyrsta lagi fjallar hún um húsnæði, í öðru lagi um staðsetningu og í þriðja lagi um fjármögnun. Ég er alveg sammála því sem fram kemur að rétt er að stefna að því að hafa eitt húsnæði fyrir meginstarfsemi spítalans. Ég hygg að menn muni sjá það þegar það verður skoðað og ég veit ekki annað en að verið sé að athuga líka að ávinningur verði að því að færa starfsemina á einn stað og hafa hentugt húsnæði undir hana þannig að það kann að vera álitlegt að byggja nýtt húsnæði undir starfsemi spítalans. Að því leyti til er ég því fremur fylgjandi þessari tillögu sem er að finna í ályktuninni.

Í öðru lagi um staðsetninguna. Í tillögunni er lagt til að nýbyggingin verði á lóð sjúkrahússins við Hringbraut. Um það hef ég efasemdir. Hringbrautin er ekki lengur miðjan á höfuðborgarsvæðinu og ég hygg að það gæti verið skynsamlegt að færa spítalann til innan höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega ef menn ráðast í nýbyggingu, þannig að hann sé nær því að vera miðsvæðis og aðgengi að þeim nýja stað sé mun betra en það er í dag við Hringbrautina. Ég held að menn eigi að skoða það mjög gaumgæfilega. Ég hef efasemdir um að spítalinn sé á besta staðnum með tilliti til þess hlutverks sem spítalinn á að gegna, bæði fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar á landinu.

Í þriðja lagi fjallar tillagan um fjármögnun en lagt er til að hluti af söluandvirði ríkiseigna renni til þess að fjármagna byggingu spítalans. Ég er ekki alveg sammála því heldur að öðru leyti en því að það er sjálfgefið að söluandvirði bygginganna í Fossvogi og við Hringbraut eiga að mínu viti að renna til þess að fjármagna hina nýju byggingu. Ég aðhyllist ekki að það sé rétt að álykta sérstaklega um það að tekjur eða andvirði af öðrum ríkiseignum sem kunna að verða seldar í náinni framtíð eigi að renna til þessa verkefnis eins og lagt er til. Ég held að menn eigi ekki að tengja þetta saman, og söluandvirði eigna ríkissjóðs sem kunna að verða seldar á næstu árum renni einfaldlega í ríkissjóð og menn taki síðan sjálfstæða ákvörðun um að fjármagna bygginguna með fé úr ríkissjóði.

Ég vildi koma þessu á framfæri, virðulegi forseti, við umræðuna nú áður en málið gengur til þingnefndar til þess að menn hefðu þau sjónarmið til athugunar ásamt öðrum sem fram hafa komið í umræðunni.