Réttarstaða íslenskrar tungu

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:39:46 (5070)

2004-03-09 18:39:46# 130. lþ. 79.10 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., Flm. MÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:39]

Flm. (Mörður Árnason):

Forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að athuga réttarstöðu íslenskrar tungu. Þetta er 387. mál á þinginu á þskj. 517, og hljóðar svo í upphafi sínu, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að setja á fót nefnd sem athugi réttarstöðu íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbers máls á Íslandi. Í áliti nefndarinnar komi fram staða íslenskrar tungu í löggjöfinni og tillögur til úrbóta ef þörf er talin á. Nefndin geri grein fyrir réttarstöðu þjóðtungna og annarra mála í grannlöndum og taki til sérstakrar athugunar stöðu íslensks táknmáls og tungumála nýbúa hérlendis. Þá íhugi hún hvort ástæða sé til að gefa grannmálum, einkum dönsku, færeysku, norsku og sænsku, eða tilteknum útbreiddum málum, til dæmis ensku, frönsku eða þýsku, sérstaka stöðu í löggjöfinni.``

Í tillögunni er tiltekið hvaða menn skuli skipa í nefndina og kveðið á um að nefndin ljúki störfum nógu fljótt til að ráðrúm gefist til hugsanlegra lagabreytinga, þar á meðal stjórnarskrárbreytinga, á kjörtímabilinu.

Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Kolbrún Halldórsdóttir og Sigurjón Þórðarson og koma flutningsmenn þar með úr öllum þingflokkum á Alþingi.

Það er rétt að nefna strax að nokkra umhugsun þurfti til að fela forsrh. sérstaklega að gera þetta því auðvitað komu aðrir ráðherrar til greina og þá einkum menntmrh. sem ýmsar stofnanir um íslenska tungu falla undir. Hins vegar þótti að lokum best við hæfi að það yrði forsrh. sem þetta gerði því íslensk tunga er slíkur þáttur í þjóðarvitund og þjóðlífi Íslendinga að hún getur á sem almennastan hátt varla fallið undir annan en þann ráðherra sem fer með víðtækast umboð fyrir þjóðina.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að bæði fræðimenn og glöggir áhugamenn athugi stöðu íslenskrar tungu í löggjöf okkar og setji fram tillögu til úrbóta ef þurfa þykir. Meðal þess sem sjálfsagt er að nefndin athugi er hvort þörf sé á að setja í stjórnarskrá eða almenn lög að íslenska er þjóðtunga Íslendinga, og gera grein fyrir skynsamlegu inntaki slíkra laga miðað við aðstæður okkar nú. Miðað er við að þessum störfum ljúki í tíma, eins og ég sagði áðan, til þess að ráðrúm gefist til að breyta lögum á þessu kjörtímabili, m.a. vegna þess að stjórnarskrárbreytingu þarf Alþingi að samþykkja tvisvar, fyrir og eftir þingkosningar.

Hingað til hefur óljós staða íslensku í stjórnarskrá og almennum lögum ekki komið að sök svo heitið geti. Aðstæður breytast þó hratt. Alþjóðlegt samstarf eflist óðfluga og íslensk löggjöf tengist sífellt sterkari böndum ýmsum alþjóðasamningum og alþjóðastofnunum. Þetta kallar á skýrari ákvæði um stöðu íslensku sem þjóðtungu, en jafnframt kann að vera þörf á að skilgreina stöðu annarra tungumála í íslensku samfélagi, löggjöf og stjórnsýslu, Norðurlandamála t.d. og ensku, en e.t.v. einnig annarra alþjóðamála.

Síðustu ár og áratugi hafa sífellt fleiri flust frá útlöndum til Íslands og annars vegar gerst íslenskir ríkisborgarar, nýbúar eða innflytjendur, hvort sem menn kjósa að kalla, og hins vegar sest hér að til langdvalar og starfa en kjósa að halda ríkisborgararétti sínum í föðurlandinu. Við þetta getur fjölgað stórlega íbúum á Íslandi sem hafa annað mál en íslensku að móðurmáli. Þetta hefur áhrif á stöðu íslenskunnar og kann að auka þörf á skýrum reglum um notkun íslensku í stjórnsýslunni. Þetta vekur einnig spurningar um það hvort skynsamlegt sé að móðurmál nýbúa og útlendinga á Íslandi hafi viðurkennda stöðu í löggjöf, t.d. hvað varðar samskipti við stjórnsýsluna og aðstoð við skólaskyld börn. Óskir heyrnarlausra um að móðurmál þeirra sé viðurkennt hafa líka vakið spurningar um formlega stöðu íslensku í löggjöf og stjórnkerfi.

Að þessu samanlögðu teljum við flutningsmenn brýnt að ýta úr vör því verkefni sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ég vil benda á að í grg. með þáltill. er rætt nokkuð ítarlega um frekari tildrög hennar og bent á efni sem hafa má gagn af við umfjöllun um tillöguna og raunar einnig í starfi nefndarinnar sem stofna skal.

[18:45]

Ég ætla að fara aðeins nánar í tvo helstu efnisþætti þessa máls. Þá er fyrst til að taka að hér og nú mæli ég á íslenska tungu en raunar er ekkert ákvæði í stjórnarskrá eða í þingsköpum okkar um að svo skuli vera. Flestir telja íslensku opinbert tungumál í lýðveldinu Íslandi en þetta er ekki staðfest í stjórnarskránni eða með óyggjandi hætti í almennum lögum.

Það er hins vegar hefð að tungumál Alþingis og stjórnsýslunnar sé íslenska. Íslenska hefur verið töluð í þessari stofnun frá endurreisn Alþingis og var þó ekki átakalaust á sínum tíma. Lög hafa verið á íslensku frá 1859 og fyrir þann tíma lengi birt á íslensku samhliða dönskum frumtexta. Víðast í löggjöf má heita að gert sé ráð fyrir íslensku sem opinberu máli og almennu samskiptamáli en óvíða tekið fram beinlínis. Þetta þykir svo sterk hefð að margir lögfræðingar segja það nálgast stjórnskipunarvenju.

Það kemur fyrir að það er beinlínis tekið fram að íslenska sé það tungumál sem tala skal, þar á meðal og kannski einkum í lögum um meðferð einkamála þar sem segir í einni grein, 10. gr.: ,,Þingmálið er íslenska.``

En þetta er nokkuð einstæð setning í íslenskri löggjöf og er ekki gert í samsvarandi lögum um meðferð opinberra mála sem þó eru frá sama ári, 1991. Þar kemur þó fram í einstökum greinum að íslenska er töluð í réttinum, talað er um mann sem ekki er nægilega fær í íslensku eða ekki skilur íslensku, og sennilega stafar munurinn á lögunum um meðferð opinberra mála og einkamála af því að mönnum hefur ekki þótt þörf á að taka þetta fram um opinber mál en þótt þörf á að taka þetta fram um einkamál þar sem annar aðilinn eða báðir gætu verið útlendingar og farið fram á að þeirra eigið mál yrði talað í réttinum eða eitthvert annað mál en íslenska.

Síðan eru auðvitað til ákvæði í ýmsum lögum um að vernda og efla íslenska tungu, í lögum um útvarp, leiklist, grunnskóla o.fl., og í öðrum lögum eru ákvæði um notkun íslensku, í samkeppnislögum, lögum um einkaleyfi, vörumerki, verslanaskrár, lögum um mannanöfn eins og frægt er, örnefnanefnd o.fl. Loks eru til sérstök lög um Íslenska málnefnd, sem skal ,,vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti`` eins og þar segir, með leyfi forseta, meðal hlutverka.

Hins vegar virðist menntmrh. skorta glögga lagaheimild fyrir útgáfu auglýsinga sinna um stafsetningu og greinarmerki þótt nú séu liðin 76 ár á þessu ári frá fyrstu auglýsingunni um slíkt, árið 1918.

Þess er rétt að geta að orðið þjóðtunga kemur aðeins einu sinni fyrir í íslenskum lögum, reyndar þeim sem ég nefndi áðan, um Íslenska málnefnd, og er raunar ekki haft þar um íslensku sérstaklega.

Dæmi eru þess að til texta á öðrum tungum en íslensku sé vísað í lögum og reglugerðum. Þar er annars vegar um að ræða ensku eina saman, hins vegar Norðurlandamál og ensku. Þessi dæmi eru flest rakin í greinargerð með tillögunni og þegar þau eru skoðuð kemur í ljós að samræmi er heldur áfátt í þessum tilvikum. Stundum er miðað við ensku eingöngu, stundum við ensku og Norðurlandamál. Þetta getur valdið vandræðum og ruglingi og við erum einmitt þessa dagana, jafnvel á morgun, að skila af okkur úr umhvn. allflóknu frv. um verndun hafs og stranda, en í því frv. var upphaflega á einum stað lagt til að í reglugerð verði heimilt, með leyfi forseta, ,,að vísa til enskrar útgáfu efnalista og staðla`` frá Alþjóðasiglingamálastofnuninni. Fyrirspurn leiddi hins vegar í ljós að jafngildir frumtextar frá þessari alþjóðastofnun eru á ensku, frönsku, spænsku og rússnesku og engin ástæða til þess að Íslendingar bindi sig við aðeins eitt af þessum tungumálum, og sennileg niðurstaða þessa máls er sú að nefndin leggi til að allir þessir textar séu jafngildir gagnvart þessari reglugerð.

Telja má nokkuð viðurkennt á Íslandi að í ákveðnum undantekningartilvikum sé ekki ástæða til að þýða texta sem vísað er til í slíkum lögum eða reglugerðum um afar sérhæfð efni. Þó eru engin ákvæði í löggjöf okkar um rétt almennings til að fá slíkan texta þýddan eða skýrðan á íslensku ef á þarf að halda. Það er full ástæða til að huga að slíkum ákvæðum. Þarna er auðvitað um að ræða undantekningu frá þeirri stjórnskipunarreglu sem menn telja flestir að í gildi sé um íslenska tungu og það má ekki vera þannig að það að kunna ekki tiltekin erlend tungumál ræni menn rétti sínum hér á landi.

Í tillögutextanum er gert ráð fyrir því að þetta nefndarstarf leiði til þess að íslensk tunga verði með einhverjum hætti staðfest sem opinbert mál á Íslandi, jafnvel í stjórnarskrá, og e.t.v. sett sérlög um stöðu hennar í löggjöf og stjórnsýslu. Þetta er fremur undantekning en regla í grannlöndum okkar og er slíkur lagarammi tíðastur þar sem tvö eða fleiri tungumál eru töluð í ríkinu, svo sem í Finnlandi, Noregi eða Belgíu. Þó er að minnast Frakka sem hafa í stjórnarskrá sinni einart ákvæði um að opinbert tungumál franska lýðveldisins sé franska og eru til þess sögulegar ástæður sem gaman væri að ræða en ekki gefst tími til hér.

Þetta kann þó að vera að breytast í grannlöndum okkar samanber umfjöllun og tilvísanir í greinargerðinni til þess starfs sem nú fer fram í Svíþjóð. Þar þykir þörf á því annars vegar að skýra með vissu stöðu sænskunnar gagnvart ásæknum alþjóðatungum, fyrst og fremst ensku, og svo hins vegar samhengi sænsku og annarra tungumála sem Svíar og aðrir íbúar Svíþjóðar tala, hefðbundinna minnihlutamála á borð við finnsku nyrst í landinu, jiddísku og rómaní, mál sígauna, en einnig tungumála nýbúa og farandverkafólks í Svíþjóð, og síðan í þriðja lagi gagnvart sænsku táknmáli. Vinna Svía í þessu efni ætti að geta orðið okkur gagnleg þegar við byrjum að skilgreina réttarstöðu íslenskunnar og annarra tungumála Íslendinga í löggjöf og stjórnsýslu og menntaþjónustu hérlendis.

Nú er kominn tími til að heyrnarlausir Íslendingar nái árangri í réttindabaráttu sinni fyrir því að móðurmál þeirra öðlist viðurkenningu. Málflutningur hv. þm. Sigurlínar Margrétar Sigurðardóttur í réttindamálum heyrnarlausra vakti verulega athygli í haust og það er vonandi að framhald verði á umfjöllun um það þegar menntmn. þingsins, sem hingað til hefur sofið nokkuð værum svefni, vaknar, sem ég vona að gerist á næstu vikum. Ég tel raunar að það mál og þetta hér eigi að hafa samleið í umfjöllun nefndarinnar eins og kostur er. Það er í því sambandi merkilegt að fulltrúar heyrnarlausra og heyrnarskertra hafa vakið athygli á því að það torveldi starf þeirra að réttlátri lagastöðu íslenska táknmálsins hvað lagaákvæði um íslensku eru óskýr í lögunum, sjá t.d. bréf Hafdísar Gísladóttur sem fylgir greinargerðinni.

Þá er að segja frá því nánast að lokum að á Íslandi búa nú um 10 þúsund erlendir ríkisborgarar, 3,5% þeirra sem hafa lögheimili á Íslandi samkvæmt tölum Hagstofunnar frá desember 2002. Um nýbúa er erfiðara að nefna tölur samkvæmt eðli máls en Hagstofan segir rúmlega 19 þúsund manns á Íslandi hafa fæðst erlendis. Af tölum frá Hagstofu er óhætt að draga þá ályktun að um 5--6% íbúa á Íslandi eigi sér annað móðurmál en íslensku. Sú tala segir ekki alla söguna því að einkum er um það að ræða að þetta fólk sé í yngri aldurshópum og hlutfallið á þannig eftir að hækka jafnvel þótt innflutningur fólks aukist ekki, sem er ólíklegt.

Fram kom á ráðstefnu í Alþjóðahúsinu um daginn í tengslum við vetrarhátíðina í Reykjavík að um 1.340 börn í grunnskólum landsins ættu sér annað móðurmál en íslensku. 1.340 börn mundu fylla í Reykjavík Austurbæjarskólann og Melaskólann líka og þyrfti þó enn að útvega 140 börnum stað og þau kæmust fyrir í hálfum Vesturbæjarskólanum.

Hér er lagt til að nefndin athugi sérstaklega stöðu þessa hóps og safni saman tiltækum upplýsingum um hann, sérstaklega um tungumálaerfiðleika og íslenskukunnáttu, og geri tillögur um úrbætur. Ráðlegt er að nefndin athugi sérstaklega tilhögun þessara mála og reglur sem um þau gilda hjá öðrum norrænum þjóðum. Ég held að ef rétt er á haldið eigi það að styrkja stöðu íslenskunnar að hlúa að þessum tveimur tegundum tungumála og viðurkenna tilvist þeirra á Íslandi.

Forseti. Ég ætla ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta efni. Hér mætti auðvitað syngja tungunni hástemmt lof í bundnu máli eða óbundnu en ég held að það sé réttast að hafa þetta lágróma að sinni. Ég vona og hygg að hv. þm. skilji að hér er á ferð mikilvægt mál þó að það láti ekki mikið yfir sér. Ég vonast eftir góðu samstarfi um málið á þinginu og þakka meðflutningsmönnum mínum bæði liðsinni þeirra og áhuga og legg að lokum til að að lokinni fyrri umr. fari málið til hv. menntmn.