Réttarstaða íslenskrar tungu

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:54:33 (5071)

2004-03-09 18:54:33# 130. lþ. 79.10 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég er einn flutningsmanna þessarar tillögu eins og kom fram hjá frummælanda en tillagan felur í sér að setja á fót nefnd sem athugi réttarstöðu íslensku sem þjóðtungu Íslendinga og opinbers máls á Íslandi. Ætlast er til að í áliti nefndarinnar komi fram staða íslenskrar tungu í löggjöfinni og tillögur til úrbóta ef þörf er talin á.

Ég tel fulla þörf á að fara yfir stöðu íslenskunnar og stöðu hennar í stjórnkerfinu. Það er rétt að geta þess að erlend tungumál hafa mismunandi réttarstöðu eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni og það er örugglega tímabært að fara yfir mismunandi réttarstöðu erlendra tungumála og fá yfirlit yfir stöðu þeirra. Ætla má að almenningur verði einna helst var við erlend tungumál og mismunandi réttarstöðu þeirra þegar hann fer í verslun og gerir innkaup og athugar innihaldslýsingar á vörum, en í reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla segir svo, með leyfi forseta:

,,Merkja skal á íslensku, ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að þessar upplýsingar séu gefnar á fleiri en einu tungumáli.``

Frú forseti. Ég tel einnig mjög mikilvægt að skoða sérstaklega réttarstöðu íslenskunnar í stjórnkerfinu út frá máli sem kom upp í haust en þá fór sá er hér talar fram á að fá þýðingu á ræðu æðsta embættismanns þjóðarinnar, forseta Íslands. Forsetinn flutti ræðu í Columbia háskólanum í New York miðvikudaginn 12. nóvember 2003 á ensku. Eftir því sem ég komst næst var ræðan hin áhugaverðasta og fjallaði m.a. um lífskjör Íslendinga nú og fyrr á tímum, heilbrigðiskerfið, stjórn fiskveiða og fleiri mikilsverð málefni.

Það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar mér barst bréf frá forsetaembættinu þann 21. nóvember 2003 undirritað af skrifstofustjóra forsetans, Örnólfi Thorssyni, þar sem ósk minni um þýðingu á umræddri ræðu forsetans var hafnað. Í bréfinu er vitnað í vinnureglu sem lengi hafi gilt hjá forsetaembættinu um að hvorki ræður forseta á erlendum tungumálum né textar hafi verið þýddir á íslensku. Því var borið við m.a. að ef þessar ræður yrðu þýddar væri það breyting á vinnureglu sem hefði gilt lengi og þýddi ákveðinn kostnaðarauka fyrir forsetaembættið.

Frú forseti. Ég verð að játa að mér þykir þessi vinnuregla æðsta embættis þjóðarinnar mjög sérkennileg, vægast sagt. Forsetinn flytur mál sitt fyrir hönd þjóðarinnar á erlendri grund á erlendu tungumáli sem landsmenn skilja misvel. Ég hefði talið það vera eitt af forgangsverkefnum embættis forseta Íslands að koma ræðum og ritum forsetans yfir á móðurmál landsmanna, íslenskuna. Landsmenn og kjósendur forseta Íslands ættu að eiga greiðan aðgang að málflutningi forsetans til þess að geta metið störf hans og haft skoðun á málflutningi forsetans í opinberum erindagjörðum. Ég tel að breyta þurfi þessari vinnureglu.

Ég tel æskilegt að nefndin sem verður skipuð samkvæmt þáltill. fari yfir framangreinda vinnureglu og leggi mat á það hvort ekki sé löngu orðið tímabært að breyta henni.

Frú forseti. Það eru fleiri álitamál í stjórnkerfinu sem hafa komið upp og eru á leiðinni að verða að álitamáli. Ég vil tiltaka frv. til fullnustu refsinga. Þar eru nokkur ákvæði um tungumál, m.a. um að heimilt sé að krefjast þess að samtal fanga og gesta fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur, að símtöl fanga fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur og jafnvel að bréfaskriftir fanga fari fram á tungumáli sem fangavörður skilur.

Nú er það svo að það er misjafnt hvaða mál fangaverðir skilja. Ég geri ekki ráð fyrir að margir fangaverðir skilji t.d. táknmál. Ég tel að vinna nefndarinnar, sem væri skipuð samkvæmt þáltill., þar sem farið væri yfir hvort veita ætti málum í nágrannalöndunum einhverja sérstaka stöðu í löggjöfinni, gæti í raun auðveldað ýmsa vinnu við að samræma löggjöf og setningu reglugerða á hinum ýmsu sviðum, m.a. í því frv. sem ég ræddi um hér, um fullnustu refsinga.