Þingsköp Alþingis

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 19:02:16 (5073)

2004-03-09 19:02:16# 130. lþ. 79.11 fundur 458. mál: #A þingsköp Alþingis# (upplýsingar um hlutafélög) frv., 459. mál: #A hlutafélög# (réttur alþingismanna til upplýsinga) frv., Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[19:02]

Flm. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. forseti gat um eru þau tvö frumvörp sem hér eru til umræðu nátengd, eins konar tvíburafrumvörp. Þau eru ekki ný af nálinni. Þau hefur undirritaður ásamt meðflutningsmönnum flutt fimm sinnum áður. Þetta er í sjötta skiptið sem mál þetta er flutt en það hefur að vísu verið með endurbættri greinargerð frá ári til árs. Ég þarf því ekki að hafa mörg orð um þau mál sem hér um ræðir. Þessi frumvörp lúta að því að tryggja rétt alþingismanna til að fá upplýsingar um gang og stöðu mála hjá fyrirtækjum sem eru að helmingi eða meira í eigu ríkis eða sveitarfélaga.

Af hverju þetta mál? Reynslan hefur ítrekað sýnt það í þessum sal að það gengur oft á tíðum býsna erfiðlega að fá upplýsingar sem um er beðið þegar um er að ræða að stofnanir sem hafa verið í eigu ríkisins en verið breytt í hlutafélag. Þá er eins og allar dyr læsist. Tíðustu og nýjustu dæmin eru auðvitað um Landssímann þar sem afskaplega erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um gang mála. Í því sambandi hefur verið borið við viðskiptaleyndarmálum og nánast orðið eðlisbreyting á samskiptum þings og þessa stóra fyrirtækis, í 95% í eigu þjóðarinnar, frá því að háeff-væðingin var um garð gengin.

Í ræðustól Alþingis hafa menn oft talað um nauðsyn og mikilvægi þess að gagnsæi sé til staðar hjá þessum mikilvægu þjónustufyrirtækjum í eigu þjóðarinnar. En þegar til kastanna kemur hefur gengið erfiðlega að fá umræddar upplýsingar.

Greinargerðin segir að öðru leyti allt um það sem hér er á ferð. Ég vildi hins vegar ekki láta hjá líða að vekja sérstaka athygli á ábendingum umboðsmanns Alþingis sem er að finna í fylgiskjali með greinargerðinni. Ábendingum sínum kom hann á framfæri í skýrslu sinni vegna ársins 2001. Sú skýrsla var til umræðu á hinu háa Alþingi 7. nóvember 2002 og þá lýstu allir þeir ræðumenn sem til máls tóku yfir stuðningi sínum við mikilvægi þess að skýrari reglur um þessi efni væru til staðar.

Ég vil að lokum vitna í orð umboðsmanns Alþingis. Þau segja allt sem segja þarf um þessi efni. Umboðsmaður Alþingis segir í skýrslu sinni fyrir árið 2001, með leyfi forseta:

,,Ég hef orðið þess var í störfum mínum að sífellt fleiri álitaefni vakna um það hvort og þá með hvaða hætti almennar reglur stjórnsýsluréttar eiga við um hlutafélög og sameignarfélög í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Hafa verður í huga að ekki er sjálfgefið að breytt rekstrarform opinberrar þjónustu eða verkefna leiði til þess að mögulegt sé að láta hjá líða að taka tillit til stjórnsýslureglna við framkvæmd slíkra málefna.``

Í sömu skýrslu segir umboðsmaður Alþingis, með leyfi forseta:

,,Ég tel að framangreind þróun í einkavæðingu opinberrar þjónustu og verkefna leiði til þess að mikilvægt sé að tekin sé afstaða til þess þegar slík formbreyting á sér stað hvort og þá í hvaða mæli hinar almennu stjórnsýslureglur og þá einnig reglur stjórnsýslulaga og upplýsingalaga eigi framvegis að gilda um starfsemina. Það er hvorki starfseminni né borgurunum í hag að réttaróvissa sé um þetta. Sérstaklega á þetta við þegar farin er sú leið af hálfu ríkis og sveitarfélaga að færa starfsemi yfir í hlutafélag eða annað einkaréttarlegt form án þess að það verði nein breyting á eignarhaldi eða verkefnum. Það á líka að vera hlutverk löggjafans og þeirra sem taka ákvarðanir um slíkar formbreytingar að taka afstöðu til þess í hvaða mæli sjónarmið um aukið hagræði og skilvirkni við framkvæmd opinberrar þjónustu eigi að skerða það réttaröryggi sem býr að baki tilvist almennra stjórnsýslureglna í samskiptum stjórnvalda og borgaranna. Í þessu efni getur verið tilefni til þess að taka til athugunar hvort rétt sé að setja í lög almennar reglur um slík opinber fyrirtæki þar sem tekin væri afstaða til þess hvernig fara ætti um ýmis atriði þar sem álitamál er hvernig hinar hefðbundnu reglur félagaréttarins eiga við.``

Áskorun umboðsmanns Alþingis höfum ég og félagar mínir mætt með þessum frumvörpum. Ég vil undirstrika það sem einnig er getið um í greinargerð, og um það hefur ekki verið deilt í þessum sölum, að réttur alþingismanna til upplýsinga hlýtur að ganga feti framar heldur en gengið er út frá varðandi rétt almennra borgara samkvæmt upplýsingalögum. Þingsköp standa til þess sem og stjórnarskrá.

Ég geri að tillögu minni að þessum frumvörpum verði nú sem fyrr vísað til allshn. Ég vænti þess að nú renni upp sú dagur, sú stund og það vor, að allshn. afgreiði þetta mál frá sér. Það er engin hemja að í störfum okkar á Alþingi skuli mál af þessum toga eða öðrum fara til umfjöllunar ár eftir ár án þess að almennum þingmönnum gefist kostur á að taka efnislega afstöðu til þeirra. Mér er auðvitað skapi næst að leggja næst fram tillögu til breytinga á þingsköpum sem mundi lúta að því að ákveðinn hámarksárafjöldi sé á því hve lengi nefndir hafi tækifæri til að salta mál þingmanna án þess að afgreiða þau til þingsins á nýjan leik.

Tillaga mín er sú að málum þessum verði vísað til allshn.