Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:34:30 (5076)

2004-03-10 13:34:30# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:34]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Mál íslensks ríkisborgara sem hlaut 10 ára fangelsisdóm í Texas fyrir minni háttar afbrot sem hann framdi þegar hann var 11 ára gamall er bæði sorglegt og skelfilegt. Það er ljóst að reglur réttarríkisins eru ekki í hávegum hafðar í umræddu fylki Bandaríkjanna, enda er hægt að fullyrða að ekkert annað vestrænt ríki hefði brugðist eins við og Texas gerði í umræddu tilviki.

Nú hefur viðkomandi einstaklingur setið í bandarísku fangelsi í meira en 7 ár og mun sitja næstu 3 árin í ströngu stofufangelsi þar sem öll vinna er bönnuð, nánast öll samskipti við fjölskyldu og vini bönnuð og í raun öll útivera óheimil. Fylgst er með stráknum með staðsetningartæki og mun minnsta yfirsjón valda því að honum er hent aftur í grjótið.

Á sínum tíma beittu íslenskir embættismenn sér talsvert í málinu og hefur Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, meira að segja farið til Texas til að reyna að liðka fyrir málinu og eiga hann og aðrir embættismenn hrós skilið fyrir mikið starf og góðan vilja. En allt kom fyrir ekki og ekki hefur verið hægt að fá leyfi fyrir strákinn til að ljúka afplánun sinni hér á landi. Það er því mat þeirra sem hafa komið nálægt málinu að leiðir embættismanna séu fullreyndar og því beri að grípa til annarra lausna. Ein þeirra er aðkoma stjórnmálamanna að málinu. Það verður bara að viðurkennast að sum milliríkjamál leysast ekki fyrr en þau komast á borð stjórnmálamanna. Í svona málum getur aðkoma stjórnmálamanna, ég tala ekki um ef þeir eru hátt settir eins og ráðherrar eru, skipt sköpum. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hvort hann sé tilbúinn til að beita sér með beinum hætti fyrir lausn þessa sorglega máls, t.d. með því að hafa samband við stjórnvöld í Texas eða Washington til að umræddur Íslendingur geti lokið afplánun sinni hér á landi.