Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:38:39 (5078)

2004-03-10 13:38:39# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:38]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þær upplýsingar sem hann gaf okkur í málflutningi sínum. Ljóst er að bæði utanrrn. og eins sendiherrar Íslands í Bandaríkjunum hafa komið að málinu þann tíma sem drengurinn var í fangelsi, en því miður er löggjöf Texas-ríkis með þeim hætti að okkur sem hér lifum og störfum þykir með ólíkindum að þetta skuli viðgangast í hinu frjálsa ríki Bandaríkjanna.

Ég hvet hæstv. utanrrh. og þær stofnanir sem geta komið að málinu að vinna að því áfram og vísa til mannúðarástæðna svo okkar íslenski ríkisborgari geti komið til Íslands og búið hér til frambúðar. Alla vega losa hann undan þeirri áþján sem stofufangelsið er sem hann býr við núna, eins ómannlegt og það er tel ég mikilvægt að halda áfram að vinna að málinu af mannúðarástæðum.