Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:40:27 (5079)

2004-03-10 13:40:27# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), MF
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf við málaleitan hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar og ítreka að það þarf að koma til mikil og sterk barátta íslenskra stjórnvalda til að færa heim einstaklinginn Aron Pálma Ágústsson.

Þegar hann var 17 ára gamall og tekin var ákvörðun um að flytja hann úr barnafangelsi yfir í fullorðinsfangelsi var niðurstaða dóms eftir málaferli sú að ekki bæri að flytja hann í fullorðinsfangelsi. Niðurstaða dómarans var að best væri fyrir hann að fara heim til Íslands og ljúka afplánun sinni þar og fá eðlilega aðstoð og meðhöndlun fagfólks heima á Íslandi. Þá héldu menn að málið væri unnið og kannski fyrst og fremst Bragi Guðbrandsson sem hefur beitt sér í málinu af alefli, en eftir ríkisstjóraskipti í Texas var hins vegar lokað á allar frekari viðræður við íslensk stjórnvöld. Mér þykir gott að heyra að hæstv. ráðherra ætlar sér að láta það koma mjög skýrt fram að öll samskipti við Texas-ríki í málinu hafa verið fyrir neðan allar hellur og ekki sæmandi í samskiptum þjóða eins og menn hafa brugðist við og komið fram. Ég fagna því að hæstv. ráðherra ætlar að beita sér í málinu.